Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:20:47 (1015)

1999-11-02 19:20:47# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er orðinn hálfþreyttur á því að standa hér frammi fyrir hv. þm. sem nú tilheyra Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og upplýsa þá um hug minn í þessu máli. Ég er eini þingmaðurinn held ég sem hef ár eftir ár staðið hérna og sagt að ég tel að við eigum að láta reyna á umsókn.

Hv. þm. er kannski nálægt kjarna skilnings á málinu, og nær því en ég taldi. Hann orðaði það svo að menn hefðu litið svo á að það væri einmitt afstaðan til sjávarútvegsmálanna sem gerði það að verkum að þetta væri a.m.k. á gráu svæði. Það er málið. Það er á gráu svæði. Það er nefnilega ekki rétt sem margir halda fram að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna ESB útiloki það fyrir fram að við getum orðið aðilar að Evrópusambandinu. En ég tiltek sérstaklega að í forustu Sjálfstfl. hafa menn ítrekað nefnt nákvæmlega það atriði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að um sé að ræða í besta falli misskilning hjá þeim sem halda því fram.

Ég hef reyndar reynt að brydda upp á umræðu um þetta mál í þinginu í fyrri umræðum um utanríkismál vegna þess að ég er þeirrar skoðunar og gæti í mun lengra máli fært rök fyrir því, að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna sé ekki sá ásteytingarsteinn sem menn telja. Jafnvel þó að hún væri það, herra forseti, þá tel ég með vísan t.d. til þeirra samninga sem tókust um landbúnað á ákveðnum svæðum Norðurlandanna að hægt væri að semja sérstaklega um það. Þess vegna þurfum við umræðu. Við þurfum að fá úttekt á kostum og göllum aðildarinnar sem ekki tókst að fá fram í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í en hæstv. utanrrh. hefur bersýnilega tekist að þessu leytinu að koma vitinu fyrir samstarfsflokkinn vegna þess að nú hefur verið fallist á að gera slíka skýrslu. Og væntanlega kemur þá í ljós, herra forseti, hvort þessi sameiginlega sjávarútvegsstefna útilokar það fyrir fram að við eigum þarna betra samstarf við Evrópu.