Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:24:04 (1017)

1999-11-02 19:24:04# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:24]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp að gefnu tilefni þar sem kallað var eftir viðbrögðum frá mér af hv. þm. Ögmundi Jónassyni. En það er fremur hvimleitt þegar maður hefur verið í umræðum í máli og sett fram alveg skýra skoðun þegar einhver kemur síðar inn í umræðuna og þykist ekkert vita hvaða afstöðu maður hafi til málsins.

Ég tók sérstaklega undir þann kafla í ræðu utanrrh. þar sem hann talar um að gera hlutlausa úttekt þar sem farið verður yfir starf Evrópusambandsins þar sem hægt sé að draga fram hver staða Íslands verður án samninga, hvernig samstarfssamningurinn Schengen og aðrir samningar nýtast okkur og hver bein áhrif yrðu af því að Ísland væri aðildarríki. Ég benti sérstaklega á að það þyrfti að skoða hver yrði staða Íslands ef Sviss og Noregur ættu eftir að fara á næstu árum inn í Evrópusambandið en Ísland ekki vegna kostnaðar við EES-samninginn.

Að því leyti hefur afstaða okkar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar ekki verið hin sama. Hann hefur verið afdráttarlaust þeirrar skoðunar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef viljað að skoðaðir yrðu kostir þess og gallar og að því loknu mundi ég taka afstöðu. Þessu lýsti ég hér í dag. Ég hef því ekki verið ein þeirra sem hafa lýst því fyrir fram, áður en dæmið væri skoðað, að ég vildi fara þarna inn. Þetta hefur verið skýrt af minni hálfu, ævinlega. Og mér sýnist, af því að þingmaðurinn var að ræða það, að einmitt í þessari afstöðu sé e.t.v. samhljómur á milli mín og hæstv. utanrrh. ef það gleður þingmannsins hjarta.