Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:26:12 (1018)

1999-11-02 19:26:12# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:26]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlustað á alla þessa umræðu, hvert einasta orð sem hér hefur verið sagt. Það hef ég gert bæði hér í þingsalnum og ég hef gert það á skrifstofu minni og heyrði þar á meðal ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur frá orði til orðs. Ég var að gagnrýna einn þátt þeirrar ræðu, þá staðhæfingu sem fram kom hjá hv. þm. að aðildin að EES væri óumdeild. Og hún vitnaði þar til fundar með fulltrúum Samtaka iðnaðarins. Ég gagnrýndi þetta í ræðu hennar, ég vil að það komi fram.

Það sem ég var hins vegar að vekja athygli á í ræðu minni var að megindrættirnir gagnvart Evrópusambandinu í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins liggja að mínum dómi fyrir. Það er alveg rétt. Það er hægt að gera úttekt á tilkostnaði við EES. En stóru málin, stóru drættirnir liggja ljósir fyrir að mínum dómi þótt einhverjir telji álitamál vera uppi gagnvart sjávarútvegsstefnunni. Ég var að reyna að færa rök fyrir því að það væru þrjár fylkingar, í fyrsta lagi sú fylking sem vildi láta reyna á aðildarumsókn og sjá hvað við fengjum fram með því móti, síðan væru þeir sem vildu bíða átekta og í þriðja lagi hinir, og ég tilheyri þeim, sem vilja strax reyna að þróa þetta samstarf í átt til tvíhliða samnings.