Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:32:22 (1021)

1999-11-02 19:32:22# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel að hafi verið mjög gagnleg. Ég ætla ekki að rifja hér upp einstök mál en reyna að svara nokkrum atriðum sem ekki hafa komið fram. Ég tel að þessi umræða hafi sýnt að það er mikill vilji fyrir því að hér fari fram umræða um stöðu okkar í Evrópu sem skiptir okkur miklu máli.

Nú liggur ljóst fyrir að ég var þeirrar skoðunar gera þyrfti samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði en ég var hins vegar einnig þeirrar skoðunar að á þeim samningi væru ýmsir gallar. Þannig er með alla samninga, þeim fylgja bæði gallar og kostir. Ég hélt uppi málefnalegri gagnrýni á þessa ágalla og tel að þeir hafi komið fram, jafnvel í meira mæli en ég gerði ráð fyrir þá. Ég er ekki að ásaka neinn í því sambandi. Ég hef hins vegar séð að ýmislegt af því sem menn héldu fram að væri til hagsbóta fyrir Ísland hefur ekki orðið það. Þessi samningur er staðreynd og með þessu er ég ekki að halda því fram að rangt hafi verið að gera þennan samning. Ég hefði hins vegar viljað sjá hann betri, eins og menn vilja almennt sjá samninga. Menn skrifa undir samninga vegna þess að þeir telja sig þurfa að standa að málum með þeim hætti en vildu hafa séð þá enn betri. Það á ekki bara við um alþjóðlega samninga, það á við um kjarasamninga og ýmsa aðra samninga á milli manna.

Ég tel að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi rætt þessi mál málefnalega og í öðrum tón en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. En þó virðist mér hann hafa rangt fyrir sér í einu. Hann talar um að hann vilji heiðarlega umræðu. Hann kemur fram eins og hann sé hinn heiðarlegi maður en einhverjir aðrir með óheiðarlega umræðu. Nú er það ekki svo, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að hægt sé að skipta slíku stórmáli í ákveðnar fylkingar og einhverja kassa, mála þetta í svart-hvítu. Ég vil, segir hv. þm., vera í kassanum sem vill þróa þessa samninga í átt að tvíhliða samningum.

Nú má vel vera að menn taki þá afstöðu. En það er ekki svo einfalt. Við höfum innleitt í löggjöf okkar mjög mikið af gerðum Evrópusambandsins. Þessar gerðir og innri markaðurinn munu halda áfram að þróast og fram hjá því verður ekki gengið. Málið er ekki þannig að það sé hægt að búa til þrjár fylkingar og segja: Við viljum að fólk sé heiðarlegt, annaðhvort í fylkingunni okkar eða hinum ljótu kössunum tveimur. Þannig er ekki lífið. Ég er hér einfaldlega að leggja til og margir taka undir það að við förum yfir þetta mál. Auðvitað erum við alltaf að fara yfir það. Við verðum að horfast í augu við kosti þess og galla. Það eru óskaplega margir gallar á því að þróa þetta til tvíhliða samstarfs. Það eru að sjálfsögðu líka stórir gallar við að þróa samninginn í átt að aðild að Evrópusambandinu. Ég geri mér það fullkomlega ljóst.

Ég tel heiðarlegt að leggja þetta fyrir eftir bestu getu þannig að þjóðin geri sér betur grein fyrir stöðunni. Þar munum við ekki einir verða ráðandi eins og hv. þm. lætur í skína, að hann vilji hafa samning sem þrengi ekki að lýðræðinu. Hann sér Ísland utan við kapítalismann og það geti staðið eitt, óháð hinu alþjóðlega fjármagnskerfi og óháð hinu alþjóðlega markaðskerfi. Það getum við því miður ekki ef við viljum vera hluti af hinu alþjóðlega samfélagi. Ef við viljum þróa allt öðruvísi samfélag en gengur og gerist í kringum okkur þá getum við það. En ég skal lofa hv. þm. því að þá munu kjör okkar versna mikið og meira en hann gerir sér í hugarlund.

Umræðan er mikilvæg en í guðanna bænum þá bið ég hv. þm. að ganga ekki út frá því að hann sé að tala hér við óheiðarlegt fólk eins og mér finnst hann gera og hv. þm. Steingrímur Sigfússon gerði í enn meiri mæli. Hann vill ekki taka það sem gott og gilt sem sagt er heldur þarf að færa það í einhvern annan búning. Það er sjálfsagt sérstök orðabók í þessum annars sjálfsagt ágæta flokki, sem ég ætla ekkert að dæma fyrir fram, þar sem menn geta lesið þýðingar á öllu. Menn koma hér með allar ræður sem ég hef haldið undanfarin ár, lesa upp úr þeim og fletta sjálfsagt upp í þessari orðabók vinstri grænna og segja alþjóð hvað orð mín þýði, hvað ráðherrann sé að segja. Þetta er málflutningur sem mér finnst utan við allan raunveruleika eins og mér hafa fundist ræður hv. þm. sem tilheyra þessum flokki --- nema þessi síðasta ræða hv. þm. Ögmundar Jónassonar, hún var þó ágæt tilraun til að ræða málið málefnalega. Mér finnst það mjög virðingarvert og þakkarvert. Ég efast ekkert um heiðarleika hv. þm. þó ég sé honum ósammála. Hann getur ekki krafist þess að skipta þjóðinni upp í ákveðin box og að hann vilji hafa með eitt boxið að gera.

Þetta er að vísu háttur flokka á þessum væng stjórnmálanna. Þeir vilja staðsetja sig á vinstri kantinum, eru úti í jaðrinum á móti því sem almennt er að gerast og vilja þá hafa hina annars staðar til að fá sem skýrasta línu. Þeim líkar ekki að hafa eitthvað óskýrt. En lífið er því miður stundum óskýrt og ég fæ því ekki ráðið. Þar ráða aðrir.

Út af spurningum sem hér hafa komið fram tel ég að ég hafi komið inn á flest þau atriði. Ég vildi þó segja, út af spurningu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um mannréttindaráðið, að ég sagði í febrúar að til greina kæmi að Ísland sæktist eftir sæti í mannréttindaráðinu til að hafa aukin áhrif á mannréttindaumræðuna á alþjóðavettvangi. Við sögðum á fundi í sumar, á vettvangi Norðurlandasamstarfsins, að við mundum taka þetta upp þegar að okkur kæmi í framtíðinni. Ég skal hins vegar játa að við höfum takmarkaða möguleika til að sinna mörgu í einu. Við höfum haft margvíslegt samstarf á alþjóðavettvangi og forustu en það eru takmörk fyrir því hvað þessi litla utanríkisþjónusta getur sinnt mörgu í einu.

Við höfum t.d. verið beðin um að taka við forustu í Norðurskautsráðinu. Við erum mjög hikandi í þeim efnum þó við viljum það gjarnan og teljum að við séum betur hæf til þess á síðari stigum. Það er mikilvægt að við getum sinnt þessum málum af fullri reisn vegna þess að ef við gerum það ekki þá stöndum við ekki undir þeim væntingum sem almennt eru gerðar til Íslendinga á alþjóðavettvangi í sambandi við forustu í slíkum málum.

Að því er varðar alþjóðaglæpadómstólinn sem við vorum einna fyrstir til að taka þátt í og hv. þm. spurði um, þá erum við að undirbúa staðfestingu á þeim samningi. Ég vænti þess að það geti orðið fljótlega. Það þarf að breyta löggjöf víða um lönd vegna þess máls, einnig hér á Íslandi. Það stendur á engan hátt á okkur í því máli. Við teljum að þetta sé afar mikilvægt til að taka á stríðsglæpum víðs vegar í heiminum. Alþjóðastríðsglæpadómstóllinn sem hefur verið að dæma í mannréttindabrotum og glæpum gegn mannkyni, bæði í Bosníu og væntanlega einnig í Kosovo, er að störfum. Það er mjög mikilvægt að þessi dómstóll komist á laggirnar og við Íslendingar höfum verið í fararbroddi í þeim efnum.

Herra forseti. Ég vil endurtaka þakkir mínar fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið gagnleg. Hún er mikilvæg fyrir íslenska utanríkisþjónustu og starfsfólk utanríkisráðuneytisins. Við erum betur upplýst um álit Alþingis á störfum okkar og ég er þakklátur fyrir að hv. þm. virða störf þessa fólks. Ég tel alþjóðasamstarf Alþingis jafnframt afar mikilvægt og hvet til að það verði aukið. Það er ekki aðeins nauðsynlegt að framkvæmdarvaldið taki þátt í alþjóðlegu samstarfi, löggjafarvaldið verður að gera það líka hvort sem það er á vettvangi Norðurlandasamstarfsins, Atlantshafsbandalagsins, Evrópumálanna eða annarra mála. Ég tel þakkarvert hvernig Alþingi hefur aukið það samstarf. En því miður hendir það menn oft að gera lítið úr þessu starfi. Um störf mín er oft sagt: Ja, það er ekki von að hæstv. utanrrh. viti neitt um þessi mál því hann er alltaf í útlöndum. Nú er það ekki svo. (Gripið fram í: Þú ert sagður vinsæll og virtur.) Ég hef ekki sagt það. En ég hef oft heyrt á hv. þingmönnum, sérstaklega andstæðingum mínum í stjórnmálum, að þetta er mikið notað, eins og það sé vanvirða að sinna störfum erlendis. Þetta verða þingmenn að gera, þetta verða ráðherrar að gera. Þingmenn mega ekki alltaf falla í þá gildru að hafa þessi orð um pólitíska andstæðinga. Hvernig ætlast menn til þess að þjóðin skilji einhvern tíma mikilvægi þess að taka þátt í alþjóðasamstarfi af fullri reisn þegar þessi tónn er notaður? Það eru þingmenn sjálfir sem skapa þessar aðstæður. Það er ekki von að Alþingi hafi mikinn skilning fyrir því t.d. að fá meira fjármagn í alþjóðsamstarf þegar hv. þm. tala svona. Það snertir mig ekkert persónulega en ég held að menn séu fyrst og fremst að vinna gegn sjálfum sér og íslenskum hagsmunum með svona tali.