Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:51:57 (1025)

1999-11-02 19:51:57# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði á hv. þm. Steingrím. J. Sigfússon á sunnudaginn og ég heyrði ekki betur en hann segðist styðja söluna á FBA. Ég skildi hann þannig. Hann hefur þá tjáð sig afar undarlega ef ekki átti að skilja það þannig. Hann tók það fram að hans flokkur væri ekki fylgjandi ríkisrekstri bara vegna ríkisreksturs. Rétt væri að ef einstaklingar og fyrirtæki þeirra gætu leyst það betur, þá væri það gert. Svipaða afstöðu hefur Framsfl. alltaf haft. Ég heyri allt annan tón hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. (ÖJ: Bæði hann og ég höfum talað um að ríkisbankar ... ) Ég skil hann þannig að hann vilji ríkisfyrirtæki vegna þess að honum finnist það vera betra form, hvort sem það skilar betri árangri eða ekki og sem flest eigi að vera á vegum ríkisins. (ÖJ: Þetta er rangt.) Mér finnst þetta stangast alveg á við það sem ég heyrði hjá hv. þm. --- (ÖJ: Þetta er dæmi um óheiðarlegan málflutning.) Ég var að segja hvernig ég skildi hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. (ÖJ: Það er til mjög ...) En alla vega virðist hv. þm. vera mjög hrifinn af ríkisrekstri. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. að auðvitað hefur EES-samningurinn haft mikil áhrif og það er þess vegna sem við erum að fara út úr m.a. bankarekstri vegna þess að fjármagnsmarkaðurinn er orðinn frjáls. Það er eins með símann. Það er orðin samkeppni í símarekstri á Íslandi, þó að það mál sé ekki endanlega til lykta leitt. Það er komin upp mikil samkeppni. Hv. þm. talar um tvíhliða samning, gott og vel. Heldur hv. þm. að hann færi íslenskt þjóðfélag alveg út úr núverandi stöðu í þeim tvíhliða samningi? Þess vegna er ekki hægt að stilla þessu máli upp eins og hann gerir. Því miður er veröldin ekki eins einföld og hann sér hana. (ÖJ: Þá er bara aðildin eftir.)