Kostun þátta í Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 13:34:12 (1034)

1999-11-03 13:34:12# 125. lþ. 18.1 fundur 104. mál: #A kostun þátta í Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna. Það er okkur kennt og svo segir það sjálft. Á grundvelli þess greiðum við öll afnotagjöld og á grundvelli þess gerum við kröfur um efnistök. Útvarp allra landsmanna verður að standa undir nafni.

Landsmenn hafa á undanförnum árum ítrekað sýnt, m.a. í skoðanakönnunum, að þeir treysta Ríkisútvarpinu til hlutleysis og réttsýni. Ríkisútvarpið hefur verið fyrirmynd annarra stöðva í hlutleysi, efnistökum og umgengni við auglýsingamarkaðinn. Þeir sem þessu hafa trúað eða viljað trúa fengu því heldur betur á pansarann þegar upplýst var í Ríkisútvarpinu sjálfu að þeir sem kosta þætti í útvarpinu megi eiga von á sérstakri kurteisi og látið sé vera að ergja þá með gagnrýnum spurningum.

Morgunútvarpið 14. október var sent út frá nýju Kringlunni. Eitt af því sem bar á góma voru þeir fjölmörgu sem lögðu nótt við dag svo opna mætti verslunarmiðstöðina á tilsettum tíma. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, hafði í fréttum útvarpsins þennan sama dag sitthvað við þennan langa vinnutíma að athuga. Fréttamaður útvarpsins fjallaði um gagnrýni Guðmundar í Speglinum sama dag og sagði þá, eins og til skýringar á umfjöllun morgunútvarpsins og viðbrögðum formanns Rafiðnaðarsambandsins, og nú vitna ég beint í ummælin, herra forseti:

,,Tæplega hefur hann grunað að útsendingin var kostuð af þeim sem ætluðu að selja vörur og þjónustu á þessum stað og því e.t.v. ekki skrýtið að viðmælendum væri sýnd sérstök kurteisi og látið vera að ergja þá með gagnrýnum spurningum.``

Herra forseti. Þar fauk mýtan um hlutleysi Ríkisútvarpsins. Ég spyr þess vegna hæstv. menntmrh., yfirmann Ríkisútvarpsins:

,,1. Hvaða reglur gilda um kostun þátta í Ríkisútvarpinu?

2. Hversu lengi hefur það viðgengist að menn geti keypt sig frá óþægilegum spurningum með því að kosta útvarpsþætti, sbr. nýleg ummæli fréttamanns þar að lútandi?

3. Hvernig eru hlustendur varaðir við þegar um kostaða þætti er að ræða?`` Lesist: ekki hlutleysi.

4. gr. útvarpslaganna segir að kostun sé heimil svo framarlega sem kostunaraðili hafi ekki áhrif á innihald eða efnistökugerð kostaðs dagskrárliðar. Samkvæmt framansögðu virðist það hafa gerst en hvenær og hve lengi? Ríkisútvarpið þarf svo sannarlega að gera hreint fyrir sínum dyrum ef það vill halda trúnaði við fólkið í landinu. Fyrr stendur útvarp allra landsmanna ekki undir nafni.