Forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 13:50:09 (1041)

1999-11-03 13:50:09# 125. lþ. 18.2 fundur 105. mál: #A forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[13:50]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er furðuleg röksemd að halda því fram að ég sé að veikja Ríkisútvarpið með það fyrir augum að selja það síðar. Það mundi stangast algjörlega á við það markmið. Ef ég ætlaði að selja Ríkisútvarpið þá mundi ég að sjálfsögðu styrkja það til þess að fá sem mest fyrir það. Það sýnir hvers lags rökleysur eru hér eru hafðar uppi þegar rætt er um Ríkisútvarpið.

Ég tek eindregið undir með hv. þm. Kristjáni Pálssyni þegar hann bendir á það að þessar umræður hér um Ríkisútvarpið --- þetta er fjórða fyrirspurnin á þessu haustþingi sem ég svara um málefni Ríkisútvarpsins -- sýni að þingmenn vilji helst skipta sér af einstökum dagskrárliðum. Hvað er nú til umræðu? Nú er það til umræðu í hv. Alþingi hvort fella mátti niður klukkutíma poppþátt að morgni 14. okt. Því miður hlustaði ég ekki á þessa dagskrárliði þannig að ég get ekki dæmt um það. Ég hlusta yfirleitt ekki á útvarpið á þessum tíma virka daga þannig að ég get ekki dæmt um hvaða skaði var skeður með þessu. En samkvæmt umsögn Ríkisútvarpsins kemur fram að enginn dagskrárliður hafi verið keyptur út úr dagskrá Rásar 2 hinn 14. okt. Fréttir um að útsending í morgunútvarpi Rásar 2 frá opnun Kringlunnar hafi verið kostuð af fyrirtækjum sem selja vöru og þjónustu í húsinu voru á misskilningi byggðar, segir Ríkisútvarpið. Í bréfi þeirra til mín segir að vegna umræðna í útvarpsráði hinn 19. október sl. hefði útvarpsstjóri óskað eftir því að eftirfarandi yrði fært til bókar, með leyfi forseta:

,,Það var sjálfstæð ákvörðun viðkomandi dagskrárdeildar að hafa beina útsendingu á Rás 2 frá opnun Kringlunnar. Engir aðrir en viðkomandi dagskrárgerðarmenn réðu efnistökum í útsendingunni.``

Þá kemur og fram í bókun útvarpsstjóra að markaðssvið Ríkisútvarpsins hafi gert samstarfssamning við húsfélag Kringlunnar um útsendinguna. Kemur þar fram að húsfélagið greiddi 150 þús. kr. fyrir birtingu auglýsingar á Rás 2 þar sem athygli var vakin á væntanlegri opnun Kringlunnar og útsendingu Rásar 2 þaðan. Í greinargerð framkvæmdastjóra útvarps kemur fram að það hafi verið dagskrárákvörðun deildarstjóra samfélags- og dægurmáladeildar í samráði við framkvæmdastjóra að lengja morgunútvarpið um eina klukkustund þennan morgun þar sem ekki lá alveg ljóst fyrir að formlegri opnun yrði lokið kl. níu. Þess vegna gekk útsendingin á tíma þáttarins Poppland í samráði við umsjónarmann hans.

Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef. Að ræða þetta hér á hinu háa Alþingi og velta því fyrir sér hvort hér sé um stórkostlegan skaða fyrir Ríkisútvarpið og hlustendur þess að ræða finnst mér mjög smásmyglileg afskipti af starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég hef mótað mér þá stefnu sem menntmrh. að skipta mér ekki af þessum þáttum í starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég mun ekki gera það þó að ég fái áskoranir frá hv. þingmönnum um niðurröðun á dagskrárliðum í útvarpinu. Ég mun treysta starfsfólki útvarpsins til að taka ákvarðanir af þessu tagi og raða dagskránni niður eins og það sjálft ákveður.