Forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:01:44 (1050)

1999-11-03 14:01:44# 125. lþ. 18.2 fundur 105. mál: #A forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil mótmæla því að ég hafi staðið að því að veikja tiltrú hlustenda á Ríkisútvarpinu. Það eru engin rök fyrir því að fara með slík orð úr þessum virðulega ræðustól. Og að standa við þau orð getur þingmaðurinn að sjálfsögðu ekki því að það er út í bláinn að halda því fram að menntmrh. hafi staðið að því að veikja Ríkisútvarpið. Þvert á móti hef ég hvað eftir annað reifað á Alþingi hugmyndir um að styrkja Ríkisútvarpið við þá breyttu stöðu sem það starfar við.

Frá 1985 hefur Ríkisútvarpið starfað við óbreytt lög og hvað eftir annað hafa menn gert tilraunir til að breyta þeim lögum til að laga starfshætti Ríkisútvarpsins að þeim kröfum sem gerðar eru til þess. Hér eru þingmenn sem mega ekki heyra á það minnst að gerð verði hin minnsta breyting á starfsháttum Ríkisútvarpsins til að gera því kleift að svara hinum nýju kröfum. Ég hef hins vegar verið talsmaður þess að menn hugi að nýjum aðferðum til að styrkja Ríkisútvarpið sem ríkisfélag svo það geti starfað og þjónað þeim hagsmunum sem við viljum að það þjóni og komið fram með það góða efni sem við viljum að það framleiði. Hér eru þingmenn sem hvað eftir annað leggjast gegn því, hafa engar hugmyndir fram að færa og standa svo hér og rífast um það hvort þætti sé frestað um klukkutíma eða ekki, poppþætti að morgni 14. október, og telja að þar sé heiður Ríkisútvarpsins í húfi. Þegar menn eru komnir á þetta stig að telja að heiður Ríkisútvarpsins ráðist af því hvort þætti sé frestað um klukkutíma að morgni 14. október, þá finnst mér að menn séu mjög á rangri braut ef þeir hafa í raun hug og hjarta Ríkisútvarpsins í huga.