Aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:24:04 (1059)

1999-11-03 14:24:04# 125. lþ. 18.4 fundur 47. mál: #A aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrirspurn hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vil ég segja að 17. október 1995 samþykkti ríkisstjórn Íslands sérstaka framkvæmdaáætlun vegna rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda.

Framkvæmdaáætlunin tók mið af niðurstöðum koltvíoxíðsnefndar sem þáv. umhvrh. skipaði í ársbyrjun 1991 til þess að kanna útstreymi gróðurhúsalofttegunda og leggja grunn að framkvæmdaáætlun til að takmarka útstreymi þeirra í samræmi við skuldbindingar rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Það má öllum ljóst vera að frá umferðinni kemur mikill hluti þeirra gróðurhúsalofttegunda sem valda fyrrnefndum loftslagsbreytingum. Markmið stefnu ríkisstjórnar Íslands er að sporna gegn gróðurhúsaáhrifum með því að útstreymi koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda verði takmarkað svo sem kostur er. Samgrn. leggur áherslu á að þessu markmiði verði náð á sem hagkvæmastan hátt. Því er mikilvægt að þjóðhagslega hagkvæmar aðgerðir hafi forgang, svo sem bætt nýting eldsneytis í farartækjum og bætt vegakerfi.

Samgrn. leggur áherslu á fjórar meginleiðir, þ.e. hvetjandi aðgerðir, fræðslu, hagstjórnartæki og þvingandi aðgerðir.

Á vegum samgrn. starfaði vinnuhópur til að vinna að skýrslu um þetta efni og var hann undir forustu aðstoðarvegamálastjóra. Vinnuhópur þessi skilaði af sér skýrslu sumarið 1998. Í henni komu fram ýmsar tillögur sem ráðuneytið leggur áherslu á og vill taka upp og hefur tekið upp að nokkru leyti.

1. Tryggja þarf að í svæðis- og aðalskipulagi sé á markvissan hátt tekið á samgöngumálum með það að markmiði að stytta akstursleiðir og draga úr akstursþörf. Einkum er mikilvægt að koma á svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið þar sem gatnakerfi allra sveitarfélaga á svæðinu verði samræmt með ofangreind markmið í huga.

2. Vinna þarf að því að umferðarmestu vegirnir séu þannig úr garði gerðir að orkunotkun verði sem minnst. Hafa þarf þetta í huga strax á hönnunarstigi. Meðal atriða sem minnka orkunotkun má benda á lög um lögn bundins slitlags á malarvegi, styttingu vega þar sem það er unnt og minnkun biðtíma á gatnakerfi þéttbýlla staða með endurbótum gatnamóta, bættri samhæfingu umferðarljósa og gerð umferðarmannvirkja.

3. Bæta þarf skipulagningu almenningssamgangna með það að markmiði að kerfi almenningssamgangna virki sem eitt kerfi gagnvart notendum. Í því sambandi þarf einnig að huga að auknum forgangi eða sérstökum leiðum fyrir almenningsvagna. Þá þarf einnig að samræma og samhæfa aðrar almenningssamgöngur á landinu.

4. Gæta þarf jafnræðis í gjaldtöku af bifreiðum þannig að dísilbílar séu ekki óhagstæður kostur eða óhagstæðari kostur en bensínbílar. Aksturshvetjandi skattlagning eins og afsláttur af þungaskatti verði lögð niður og stuðlað að því að vörur sem fluttar eru í miklu magni fari með skipum eftir því sem kostur er.

5. Setja þarf takmörk á innflutning notaðra bíla án mengunarvarna og eftirlit í bifreiðaskoðun með sót- og nítroxíðsmengun verði aukið.

6. Markviss úttekt verði gerð á rekstrarlegri hagkvæmni og notkun farartækja sem nota aðra orkugjafa en jarðefniseldsneyti. Við úttektina þurfa stjórnvöld að tryggja að farartækin séu prófuð í almennum rekstri. Jafnframt þarf að fara fram fræðsla um farartækin, kosti þeirra og galla.

Síðan vinnuhópurinn skilaði skýrslu sinni hefur ráðuneytið haft tillögur hans til athugunar og úrvinnslu. Haldnir eru reglubundnir fundir um þessi málefni með stofnunum þar sem fjallað er um þær leiðir sem mögulegar eru og hvaða gagnaöflun þarf að fara fram. Á tímabilinu hefur verið sett í gang vinna af margvíslegu tagi. En ég legg þunga áherslu á að við teljum okkur vera á undirbúningsstigi. Við verðum að líta á hvað aðrar þjóðir eru að gera og reyna þannig að finna hagstæðar leiðir og læra af öðrum. En jafnframt þarf auðvitað að hafa í huga að við getum verið í forustu.

Ráðuneytið gekkst fyrir átaki í byrjun þessa árs hjá stofnunum sínum í samvinnu við endurskoðunarfyrirtæki um græn reikningsskil. Starfsmenn ráðuneytis og stofnana þess sóttu námskeið hjá dönskum sérfræðingum um þetta málefni. Útkoman var síðan skýrsla ráðuneytisins: Umhverfisskýrsla -- samgönguráðuneytið og stofnanir þess. Stefnt er að endurskoðun skýrslunnar og þannig mótuð stefna og áhersla.

Einnig er stefnt að því að hver stofnun geri árlega umhverfisskýrslu sem verði felld inn í þá skýrslu sem ráðherra leggur árlega fyrir Alþingi, t.d. um framkvæmd vegáætlunar o.s.frv.

Herra forseti. Tími minn er liðinn en ég hef gert grein fyrir helstu áhersluatriðum sem ráðuneytið vinnur eftir og við það er miðað í allri áætlanagerð og undirbúningsgerð við mannvirkjaframkvæmdir á vegum samgrn.