Aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:29:48 (1060)

1999-11-03 14:29:48# 125. lþ. 18.4 fundur 47. mál: #A aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka greinargóð svör hæstv. samgrh. og ítreka einungis það sem ég sagði í upphafi máls míns. Ég vissi auðvitað að eitt og annað væri í bígerð og að verið væri að framkvæma ýmsa hluti. Það hefur þó farið kannski fullhljótt því að það er greinilegt af svari hæstv. ráðherra að margt af því sem verið er að gera er virkilega þarft. Vil ég sérstaklega nefna hvað þetta varðar fræðslumálin sem ég held að séu grundvallaratriði til þess að við getum öll tekið á í sameiningu til þess að stemma stigu við þessari gífurlegu losun því að við erum að upplifa þetta allt á eigin skinni. Sannleikurinn er sá að það er okkar eiginn lífsstíll sem skiptir hérna máli og það er ekki nóg að vinna að málum í opinberum stofnunum í kyrrþey þó að vel sé gert þar. Við verðum að láta til okkar heyra og senda merki út í samfélagið sem gera það að verkum að fólk taki lífsstíl sinn til athugunar og finni að það geti lagt lóð á vogarskálarnar í þessari baráttu sjálft.

[14:30]

Hitt málið sem ég vildi nefna varðar bættar almenningssamgöngur. Auðvitað er það grundvallaratriði í að stemma stigu við útblæstri frá bifreiðum að efla almenningssamgöngur. Satt að segja hefur mér oft fundist harla lítið að gert til þess í Reykjavíkurborg og lítill skilningur hafa ríkt þar á þörf fyrir öflugri almenningssamgöngur. Ég fagna því að hæstv. samgrh. hefur áhyggjur af þessu máli og er greinilega að kanna almenningssamgöngur bæði í þéttbýli og í dreifbýli. Í þessu sambandi langar mig að vekja athygli fólks á því að það kann að vera að rútusamgöngur norður í land, rútusamgöngur Norðurleiðar, verði litlar sem engar næsta sumar. Almenningsamgöngur hafa verið rýrðar mjög mikið á síðustu árum og þeirri óheillaþróun verðum við að snúa við.

Varðandi grænu reikningsskilin þá hrópa ég húrra fyrir hæstv. samgrh. og lýsi mig reiðubúna til að heimsækja hann í ráðuneytið og fá að heyra meira.