Langtímaáætlun í jarðgangagerð

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:48:45 (1070)

1999-11-03 14:48:45# 125. lþ. 18.5 fundur 61. mál: #A langtímaáætlun í jarðgangagerð# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka þær ræður sem hér hafa verið fluttar. Mér er ljóst, bæði af þeim og raunar nokkru áður, að margir áhugamenn eru um jarðgöng í sölum Alþingis og raunar víðar. Ég vænti því mikils og góðs stuðnings þegar fram líða stundir og tekist verður á við það verkefni að tryggja fjármuni til þeirra framkvæmda og niðurstöðu.

Hv. fyrirspyrjandi Kristján Möller spurði hvort fyrir lægi eitthvert samkomulag. Ég lít þannig á að ég hafi ekki fengið í vöggugjöf neitt samkomulag sem bindi hendur mínar um tillögur í vegamálum. Ég tel að ég verði að vinna á eigin forsendum og á eigin ábyrgð og Alþingi hljóti að hafa óbundnar hendur í dag þegar teknar eru ákvarðanir um vegamál. Þetta er grundvallaratriði að mínu viti.

Hins vegar getum við ekki vikið okkur undan því að unnið hefur verið að samgöngumálum í landinu og við getum ekki horft fram hjá því hvar náðst hefur árangur, hvar úrbætur hafa orðið og hvar er eftir að vinna mikilvæg verk. Það er aðalatriðið.

Í þessari vinnu hef ég lagt áherslu á að við vinnum faglega, að við skoðum reynsluna af þeim göngum sem hafa verið byggð, hvaða áhrif þau hafa á mannlíf, atvinnulíf og framþróun alla. Ég trúi að með því að skoða það auðveldi það okkur á Alþingi að sannfæra almenning í landinu að fara þurfi í jarðgöng. Það er kannski ekki svo lítið verkefni fyrir okkur og þess vegna vil ég segja vegna orða hv. þm. Jónasar Hallgrímssonar að þrátt fyrir góða vinnu forvera minna í samgrn., þá hefur orðið ör þróun í sambandi við jarðgangagerð (Forseti hringir.) og vinna þarf vel að rannsóknum og undirbúningi þessa máls í ljósi nútíðarinnar.