Uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:51:33 (1071)

1999-11-03 14:51:33# 125. lþ. 18.6 fundur 72. mál: #A uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. samgrh. um uppbyggingu fjarskipta á landsbyggðinni. Frá því að fyrirspurn mín var lögð fram hefur hæstv. samgrh. lagt fram frv. um fjarskiptamál og fagna ég því sérstaklega.

Fjarskiptalínur eru hluti af samgönguæðum nútímans ekki síður en jarðgangagerð. Fólk sækir margs konar upplýsingar á veraldarvefinn. Upplýsingaöflun nútímans fer fram að stórum hluta á vefnum og ferðaþjónusta nútímans byggist nú orðið að hluta á tölvusamskiptum þar sem neytandinn skoðar viðeigandi landsvæði í gegnum vefinn og ferðamenn panta gjarnan ferðir og gistingu í gegnum tölvur. Símatækni og upplýsingamiðlun gegnum síma er alltaf að aukast og sjónvarps- og útvarpssendingar fara fram eftir þessum nútímafjarskiptaleiðum.

Í nýliðinni kjördæmaviku gerðu sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi miklar athugasemdir við fjarskiptabúnað í dreifbýli. Líkja má fjarskiptaæðum í dreifbýli við moldarslóðir væri um hefðbundnar samgönguleiðir að ræða. Gamaldags símalínur valda töfum á boðskiptum. Þær valda einnig töfum á jafnsjálfsögðum hlut og að senda símbréf, hvað þá þegar um flóknari vinnslu er að ræða. Fjarkennsla og fjarvinnsla er eitt af mikilvægum atvinnu- og menntaframboðum nútímans og það gefur augaleið að slík vinnsla getur ekki farið fram eftir moldarslóðum, svo ég haldi áfram samlíkingunni.

Komi til sölu Landssímans er það algert skilyrði --- ég endurtek --- það er algert skilyrði stjórnvalda að tryggja að fjarskiptalínur séu í lagi sem allra víðast á landinu. Þetta er hluti af byggðastefnu nútímans. Um leið er þetta sjálfsagt öryggismál. Nefna má að fólk í Vestur-Skaftafellssýslu hefur miklar áhyggjur af samskiptamálum þar, t.d. ef um eldgos yrði að ræða á svæðinu, en þar eru fjarskiptamál í raun í miklum ólestri eins og víðar á landinu. Fyrirspurn mín til hæstv. samgrh. er því þessi:

,,Á hvern hátt hyggst ráðherra stuðla að uppbyggingu fjarskiptanets á landsbyggðinni á kjörtímabilinu þannig að sem flestir landsmenn geti á sem bestan og auðveldastan hátt nýtt tölvu-, síma- og samskiptatækni nútímans?``