Uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:59:56 (1073)

1999-11-03 14:59:56# 125. lþ. 18.6 fundur 72. mál: #A uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna frv. til laga um fjarskipti sem hann kynnti.

Fjarskiptamál eru mikil byggðamál og ég vil taka undir áhyggjur fyrirspyrjanda um fjarskipti t.d. í okkar kjördæmi, sem er Suðurlandskjördæmi, en svo háttar til að ekkert GSM-samband er mjög víða á Suðurlandi. Undir öllum Eyjafjöllum er nánast ekkert GSM-samband og í Skógum þar sem ferðaþjónusta er rekin er ekkert GSM-samband. Alla leiðina frá Vík og austur að Klaustri er heldur ekki GSM-samband. Þegar verið er að byggja upp ferðaþjónustu og við sem búum á landsbyggðinni viljum að hægt sé að stunda fjarnám, þá er það ekki hægt öðruvísi en að hafa góð tölvusamskipti. En ég fagna frv. ráðherra og veit að þessu mun verða kippt í liðinn.