Uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:01:20 (1074)

1999-11-03 15:01:20# 125. lþ. 18.6 fundur 72. mál: #A uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft afskaplega stóru máli sem ekki er hægt að gera tæmandi skil á þeim örstutta tíma sem til ráðstöfunar er. Hér er verið að ræða um það hvernig tryggja megi aðgengi allra að upplýsingahraðbrautinni ,,á sanngjörnum kjörum``, segir hæstv. ráðherra, eða ,,með hæfilegum hagnaði``, segir hann enn fremur. Þetta eru auðvitað bara orð og hugtök sem eru óútskýrð. Vitaskuld hefur maður áhyggjur af því sem fram undan er á næstu mánuðum og missirum vegna yfirlýsinga hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar, þar sem langstærsti aðili og eigandi þessarar upplýsingahraðbrautar, Landssími Íslands, er að fara á markað. Maður deilir auðvitað áhyggjum með fyrirspyrjanda og öðrum hv. þm. í þá veruna hver verði raunverulega hvati einkaaðila á þessum markaði til þess að halda áfram þessari uppbyggingu. Og einnig, hvaða tök og tól höfum við á hinu háa Alþingi til að tryggja það með almennum leikreglum að kjörin verði sanngjörn og þeir aðilar sem á þessum markaði eru skili hæfilegum hagnaði, en noti ekki þessa leið og þetta öfluga tæki sem viðskiptatálmanir eða hindranir á eðlilegri uppbyggingu og þróun þessara hluta.