Uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:06:39 (1078)

1999-11-03 15:06:39# 125. lþ. 18.6 fundur 72. mál: #A uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka svör hæstv. samgrh. og þá frjóu og ágætu umræðu sem hefur verið um þetta málefni. Það er alveg ljóst að hér er um afar brýnt mál að ræða sem þingmenn hafa mikinn áhuga á. Við vitum að hér er, eins og komið hefur fram í umræðunni, um nútímabyggðamál að ræða. Við verðum að tryggja öllum landsmönnum sama rétt til þess að njóta þessarar þjónustu, til þess að nýta þá tækni sem að tölvutæknin hefur upp á að bjóða og símtæknin. Hér er um afar öra þróun að ræða og erfitt er í raun að fylgjast með henni. Við getum spurt okkur hvað sé stutt í að þessar samgönguæðar fari í gegnum gervitungl eins og þær eru farnar að gera á erlendum markaði. Heimurinn er því að verða eitt svæði í þessum efnum. En eins og ég sagði í upphafi máls míns, komi til sölu Landssíma Íslands þá verður áður að vera tryggt að allir landsmenn hafi sama rétt í þessum efnum. Það er algjört skilyrði. Ég treysti hæstv. samgrh. til að vinna vel að þessu máli. Hæstv. samgrh. er landsbyggðarmaður eins og við mörg sem höfum tjáð okkur um þetta mál hér í dag. Ég treysti honum vel til þess að ljá ekki máls á því að selja Landssíma Íslands fyrr en þetta mál er komið í höfn.