Rekstur ferju í Ísafjarðardjúpi

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:14:40 (1081)

1999-11-03 15:14:40# 125. lþ. 18.7 fundur 74. mál: #A rekstur ferju í Ísafjarðardjúpi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur hér spurt:

,,Er ráðherra reiðubúinn til viðræðna um hvernig tryggja megi rekstur bílaferju í Ísafjarðardjúpi, a.m.k. yfir erfiðustu vetrarmánuðina, þar til lagningu Djúpvegar er að fullu lokið?``

[15:15]

Áður en ég svara fsp. beint tel ég nauðsynlegt að gera örlitla grein fyrir stöðu málsins og aðdraganda þess síðustu missirin.

Eins og hv. þm. þekkja þá var aðstaða fyrir ferjuna bætt verulega, ekki alls fyrir löngu, þegar byggðar voru ferjubryggjur við Arngerðareyri ásamt vegi og bílastæðum. Einnig var byggð aðstaða í Ísafjarðarhöfn en allt kostaði þetta tæplega 66 millj. kr. Frá og með 1. maí 1997 urðu nokkur vanskil í rekstri Fagranessins. Frá þeim tíma tók í gildi samningur milli Vegagerðarinnar og Djúpbátsins um að félagið mundi sinna þeirri ferjuleið sem tilgreind er í vegáætlun, þ.e. Vigur og Æðey. Fyrir framangreinda þjónustu var samið og greidd tiltekin föst fjárhæð. Jafnframt gáfu stjórnendur og ábyrgðaraðilar Djúpbátsins þá yfirlýsingu að þeim væri ljóst að rekstur Fagranessins væri Vegagerðinni að öðru leyti óviðkomandi.

Samhliða framansögðu varð að samkomulagi að Vegagerðin sæi til þess að Djúpbáturinn hefði ekki íþyngjandi skuldastöðu á þessum tímamótum, þ.e. að félagið hæfi óstyrktar siglingar inn að Arngerðareyri en þar hafði verið byggð ferjubryggja eins og fyrr segir. Vegagerðin greiðir Djúpbátnum tiltekna mánaðarlega greiðslu vegna samgangna við Vigur og Æðey. Auk þess hefur Djúpbáturinn fengið greiddan styrk samkvæmt ákvörðun samgrn. á árunum 1998 og 1999. Þrátt fyrir þann stuðning hefur hallað á ógæfuhliðina í þessum rekstri. Skuldastaða fyrirtækisins er mjög erfið um þessar mundir og Vegagerðin hefur átt í viðræðum við forsvarsmenn Djúpbátsins vegna þessa.

Þess má geta að Fagranesið hefur ekki verið í reglubundnum siglingum í Vigur og Æðey á undanförnum mánuðum og mun hætt siglingum inn að Arngerðareyri enda hefur bílflutningur þangað á þessu ári minnkað mjög mikið. Djúpbáturinn hefur leyst eyjasiglingarnar með litlum báti og gert um það sérstakan samning. Á undanförnum árum hefur Fagranesið verið notað þegar Herjólfur og Baldur hafa verið teknir í slipp eða verið frá vegna skoðunar. Óskir hafa komið fram um að Fagranesið verði áfram í siglingum í Ísafjarðardjúpi eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, yfir vetrarmánuðina, þ.e. frá nóvember og fram að páskum, einkum á haustmánuðum eða á vorin. Einnig hefur verið óskað eftir því, þó að það sé allt annað mál, að ferðum verði fjölgað yfir Breiðafjörðinn yfir sumartímann og hefur verið litið til þess að möguleiki væri á að nýta Fagranesið til þeirra siglinga.

Vegna fsp. hv. þm. þá vil ég svara því til að að sjálfsögðu er ég reiðubúinn til að eiga viðræður um hvernig megi koma til móts við þá sem njóta þessarar þjónustu. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að ræða um það. En það er nauðsynlegt að átta sig á því og ég vísa til þess sem segir í 2. mgr. 23. gr. vegalaga frá 1994:

,,Heimilt er að greiða af vegáætlun hluta kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði, enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg a.m.k. hluta úr ári.`` (Forseti hringir.)

Í 62. gr. sömu laga er ákv. til brb. sem segir:

,,Heimilt er að greiða hluta kostnaðar við ferjur skv. 23. gr. í allt að fimm ár frá gildistöku laga þessara þótt ekki sé fullnægt skilyrðum greinarinnar.`` (Forseti hringir.)

Þau fimm ár eru liðin um næstu áramót og fimm daga mokstur á þessari leið er staðreynd. Til þess að hægt sé að koma til móts við óskir hv. fyrirspyrjanda (Forseti hringir.) þyrfti því að gera breytingar á lögum.