Rekstur ferju í Ísafjarðardjúpi

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:22:50 (1083)

1999-11-03 15:22:50# 125. lþ. 18.7 fundur 74. mál: #A rekstur ferju í Ísafjarðardjúpi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil bæta því við það sem ég sagði áður um þetta mál að við þurfum að skoða samgöngur við Djúpið og tryggja að fyllsta öryggis sé gætt í samgöngum og skipið hefur hlutverki að gegna þar. Hins vegar verðum við að gæta þess að þar sé rekstrargrundvöllur, þ.e. að skipið sé notað. Ljóst er að mjög hefur dregið úr því á þessu ári að flutningabílarnir noti skipið. Það er visst áhyggjuefni en þetta þarf auðvitað allt saman að skoða.

Ég tel að samanburður við aðrar ferjur bæði fyrr og nú hafi ekki mjög mikla praktíska þýðingu, að velta fyrir sér hvernig Akraborgin hafi verið rekin. Þeim tíma er lokið. Viðfangsefnið í dag er að tryggja samgöngur við Djúpið. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að skoða alla skynsamlega kosti í þeim efnum. Aðalatriðið hlýtur að vera að nýta alla þá fjármuni sem við getum til að byggja upp vegakerfið en nota ferjur sem algjöra undantekningu þar sem nauðsyn krefur.