Lækkun húshitunarkostnaðar

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:57:04 (1098)

1999-11-03 15:57:04# 125. lþ. 18.9 fundur 78. mál: #A lækkun húshitunarkostnaðar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Svar hæstv. iðnrh., væntanlegs byggðamálaráðherra, veldur mér miklum vonbrigðum. Ég get ekki séð og get ekki fengið það til að hljóma saman við tillögur byggðanefndar að 30 millj. kr. viðbót við þær 600 millj. kr. sem eru á fjárlögum, muni duga til þess að lækka húshitunarkostnað eins og þarna er gerð tillaga um. Ég verð bara segja alveg eins og er að þessar 30 millj. eru svona álíka og ef maður ætlaði að gefa krakka sínum bland í poka og hann bæði um fyrir 100 kr. en fengi ekki nema fimmkall. Rýrar þykja mér þessar tillögur og slæm fyrstu skref hjá væntanlegum byggðamálaráðherra ef þetta verða tillögurnar.

Við í byggðanefndinni vorum með 600 millj. kr. inni og vissum alveg um þær þegar okkar tillögur voru gerðar. Í skýrslu Fjarhitunar sem við í þessari nefnd unnum eftir stendur það svart á hvítu að 670 millj. þarf á ári til þess að lækka húshitunarkostnað þeirra sem búa við dýrustu orkuupphitunina þannig að hún fari niður í meðaltalið sem íbúar Reykjanes- og Reykjavíkursvæðisins búa við, þ.e. bara niður í meðaltalið. Ég er ekki að tala um að hafa það ódýrara. Ég get því ómögulega séð hvernig 30 millj. muni duga miðað við þær 600 sem þarna þarf. Það er bara ómögulegt að koma því heim og saman.

Þetta veldur mér miklum vonbrigðum vegna þess að það hefur komið fram í máli hæstv. forsrh. að staðið verði við þau fyrirheit sem fram komu í þessari nefnd og þverpólitísk samstaða var um að leggja til. Þessi nefnd var undir formennsku hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Þarna voru menn að tala um að það vantaði um 700 millj. og 30 millj. á þessu ári í jöfnum áföngum, eins og kveðið er á um, eru bara ekki neitt neitt. Ég verða að segja alveg eins og er að þó að loksins séu komnar fram einhverjar tölur þá eru þær frekar rýrar og ekkert í takt við það sem vantar í þennan málaflokk. Það kemur fram að þetta voru einnota tillögur sem voru notaðar á tyllidögum rétt fyrir kosningar til þess að ganga í augun á kjósendum, en sviknar nokkrum mánuðum seinna.