Lækkun húshitunarkostnaðar

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:59:13 (1099)

1999-11-03 15:59:13# 125. lþ. 18.9 fundur 78. mál: #A lækkun húshitunarkostnaðar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:59]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. hafi misskilið svar mitt áðan vegna þess að ég er með þá skýrslu sem hv. þm. er að vitna í. Það vantar 33 millj. kr. upp á til þess að uppfylla þau fyrirheit sem gefin eru. Það stendur hér svart á hvítu í þessari skýrslu sem hv. þm. er að vitna í og ég verð að biðja hann um að lesa hana.

Varðandi aðrar spurningar sem hér komu fram þá vil ég segja að reglurnar sem settar hafa verið um hitaveiturnar og staðfestar voru í gær, munu taka til hitaveitna sem stofnaðar voru og settar á fót eftir 1998, ekki lengra aftur, frá þeim tíma er till. til þál. kom fyrst fram. Þar er gert ráð fyrir því að þetta nái til allra hitaveitna sem starfa samkvæmt orkulögum og þurfa að fá gjaldskrá sína staðfesta af iðnrh. Þetta nær ekki til einkahitaveitna sem reknar eru af einstaklingum fyrir sumarbústaðabyggðir eða annað slíkt. Þetta gildir heldur ekki fyrir þá aðila sem eru á þeim svæðum þar sem orkuveitukostnaðurinn er lægstur, t.d. gildir þetta ekki fyrir Orkuveitu Reykjavíkur sem setti af stað Nesjavallavirkjun á þessu tímabili heldur einvörðungu til þeirra hitaveitna sem reknar eru á köldum svæðum.

Ég var hins vegar að vonast til þess að hv. þm. Kristján Möller sem er mikill áhugamaður um byggðamál fagnaði sérstaklega þeim mikla árangri sem menn hafa verið að ná, þ.e. að það skuli vera búið að lækka bara núna á síðasta ári orkureikning heimilanna úti á landsbyggðinni frá því sem áður var um 12%. Og menn hafa lýst því yfir að þeir ætli að halda áfram á þessari leið. Það hefur aldrei nokkurn tíma fyrr verið minni munur á orkureikningum þess fólks sem býr úti á landsbyggðinni og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Ef menn sjá ekki að við erum á réttri leið í þessum efnum og skila engu nema vanþakklæti, þá er erfitt að þjóna. (KLM: Þetta átti að gerast í þremur jöfnum áföngum.)