Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 11:04:02 (1111)

1999-11-04 11:04:02# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[11:04]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til fjáraukalaga. Ég mun fjalla fyrst um fjárlög og fjárlagagerð sem stjórntæki og koma síðan inn á verkaskiptingu á milli Alþingis og framkvæmdarvalds, hvernig með það er farið og hvað þetta frv. til fjárlaga segir okkur almennt.

Hæstv. menntmrh. er mjög hrifinn af samræmdum prófum. Í skólakerfinu hefur verið komið á samræmdum prófum sem eru mælikvarði á frammistöðu viðkomandi. Út frá þeim má sjá hvort hann hefur staðið sig og megi fá að halda áfram. Líta má á fjáraukalögin sem nokkurs konar samræmt próf ríkisstjórnarinnar, samræmt próf ráðuneytanna sem segir til um hvernig þau hafa staðið sig í að fylgja því sem þeim var falið á Alþingi, því sem þau áttu að hafa lært og var síðan falið að framkvæma.

Þegar við erum að búa okkur undir próf þurfum við að viða að okkur réttum staðreyndum í því sem spurt er um. Í fjárlögum hljótum við líka að þurfa að byggja á réttum forsendum, ekki vera með neina svindlmiða í lófanum eða neitt þess háttar. Við þurfum að svara þegar spurt er og standa síðan undir því. Það þýðir ekki fyrir okkur að ætla að stinga hluta af staðreyndunum undir stól og halda að enginn sjái fyrr en kannski seinna þegar minna ber á.

Þegar við samþykkjum lög frá Alþingi hljótum við að ætlast til að framkvæmdarvaldið framkvæmi þau lög eins og Alþingi hefur kveðið á um. Þegar okkur er nú kynnt frv. til fjáraukalaga, sem kveður á um miklar breytingar frá fjárlögum, breytingar sem eru orðinn hlutur og Alþingi stendur frammi fyrir sem gerðum hlut, þá er ekki einu sinni öll sagan sögð. Framkvæmdarvaldið hefur tekið að sér að framkvæma það sem það hefur í rauninni ekki heimild til. Framkvæmdarvaldinu ber að vinna samkvæmt þeim lögum sem samþykkt eru en þegar svo miklar brotalamir koma fram fer maður að efast um hversu vandaður undirbúningurinn er.

Eins og okkur hefur komið þetta fyrir sjónir í fjárln. þá er fæst af því sem nefnt er á gjaldahlið fjáraukalaganna að koma á óvart. Flest af því lá fyrir við fjárlagagerð yfirstandandi árs og hefði í raun átt að taka tillit til þá. Stór hluti af þessum útgjöldum eru nefnilega bara innbyggð útgjöld. Það þarf meira til heldur en að búa til tölur í fjárlögum sem meira og minna er vitað að ekki munu standast. Ég ætla samt ekki að gera því skóna að þeir sem hafi unnið fjárlögin hafi vísvitandi ætlað að blekkja. Þau bera þess þó merki að vinnubrögðin hefðu örugglega mátt vera miklu markvissari.

Ef við lítum á þá þætti sem þarna eru, t.d. á útgjaldaþættina, þá eru það útgjöld sem eru innbyggð að meginhluta, útgjöld sem ekki er hægt að komast hjá. Þau eru í stórum málaflokkum, í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu og víðar þannig að þar er ekkert nýtt að gerast. Sjúklingum er ekki að fjölga, nemendum er ekki að fjölga, það liggja fyrir námskrár og þetta er allt vitað. Þegar fjárlög eru gerð með þessum hætti þá er eitthvað annað sem veikir þau. Til skýringar á því eru dregnir fram kjarasamningar og aðlögunarsamningar. Ég tek alveg undir það. Við vöruðum við þeirri stefnu þáv. ríkisstjórnar er setti fram þessa leið til kjarasamninga þar sem að hluta væri samið á miðlægum grunni en endanlegir lokakjarasamningar voru faldir stofnunum og þeim sagt að gera það sem þær gætu.

Stofnanir starfa líka samkvæmt lögum og ber að uppfylla skyldur og kröfur sem til þeirra eru gerðar. Þar í liggur þeirra ábyrgð. Kjaralega ábyrgðin hefur legið hjá ríkisvaldinu því að ríkisvaldið og Alþingi samþykkja það sem stofnanirnar hafa til umráða í launagreiðslur. Þeim ber hins vegar að fylgja þeim kröfum sem kveðið er á um í lögum. Við sem sátum við stjórnvölinn í stofnunum ríkisins vöruðum þá við þessari stefnu ríkisstjórnarinnar í kjaramálum. Við töldum að hún leiddi til ófyrirsjáanlegra afleiðinga enda varð sú raunin og nú klóra allir sér í kollinum yfir því. Þarna er í rauninni ekkert nýtt að koma upp en þó er málið alvarlegt.

Þau útgjöld sem hér eru tilgreind mundu nánast öll hafa komið til óháð því hvort tekjuaukning hefði orðið. Þetta er ekki þannig að maður vakni upp á föstudegi við að tekjurnar hafi hækkað og stofni þá til meiri útgjalda. Þetta er seinvirkara kerfi en svo að það virki þannig. Þessi útgjöld hefðu að langmestu leyti orðið án tekjuaukningarinnar þó að þar megi að vísu undanskilja einstaka liði og aðra liði megi kannski reikna til þess að það var kosningaár. Ef við ímyndum okkur þá alvarlegu stöðu að þessi tekjuauki hefði ekki orðið þá væri kannski ekki svo bjart yfir afgreiðslu frv. til fjáraukalaga.

Ég vil benda á að þessi tekjuauki, þó ágætt sé að fá auknar tekjur, eru þenslutekjur. Þetta eru tekjur af þenslu sem varð umfram áætlun. Þetta eru tekjur af auknum innflutningi og auknum viðskiptahalla, þetta er skattlagning á viðskiptahalla. Þetta segir okkur hvað er að gerast. Við flytjum inn mun meira en við flytjum út. Þarna ráða mestu skattstofnar sem alls ekki eru varanlegir og eru í raun andstæðir efnahagsstefnunni að hluta. Ef hún gengi upp þá mundu þessar tekjur lækka, sem þær hljóta að gera ef efnahagsstefnan sem nú er unnið að nær fram að ganga. Öll erum við andvíg því að þenslan aukist. Við teljum að hún ætti frekar að hjaðna og hér ríki stöðugleiki en þessi fjáraukalög sýna ekki stöðugleika. Þau eru hluti þenslunnar sem framkvæmdarvaldið ber að hluta til ábyrgð á og að hluta til löggjafinn.

Það væri hægt að taka fyrir einstakar stofnanir og málaflokka. Maður veltir því samt fyrir sér hvað vakir fyrir stjórnvöldum í sambandi við heilbrigðisstofnanirnar. Það hefur komið fram á fundum fjárln. að þessi halli og kostnaður er öllum ljós. Samt eru samþykkt fjárlög á þessum grunni þó vitað sé fyrir fram að þau eru ekki raunhæf. Þau hafa að vísu ákveðin markmið og sýna fram á ákveðinn vilja en hækkanir þar eru ekki bara inni á sjúkrahúsunum og heilsugæslustöðvunum heldur eru líka verulegar og óvissari hækkanir í þeirri þjónustu sem heilsugæslan kaupir af svonefndum einkageira eða einkavæddri heilbrigðisþjónustu.

Við fáum líka upplýst að heilbrigðisstofnanir, sjúkrahúsin séu að vísa frá sér verkefnum út til einkaaðila sem vel gætu verið unnin inni á sjúkrahúsunum og gert reksturinn þar bæði hagkvæmari og öruggari fyrir sjúklingana. Er verið að skapa umhverfi fyrir heilsugæsluna og sjúkrahúsin sem býr til neikvæða stjórnsýslulega umræðu svo réttlæta megi aukna einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum?

Hjá hæstv. fjmrh. hefur komið fram að þetta sé bara frv. og gert sé ráð fyrir því að í meðförum fjárln. geti auknar upplýsingar komið fram um endanlega stöðu. Okkur hefur borist vitneskja um að aðeins sé tekið á hluta vandans í heilbrigðiskerfinu, hið sama á við menntamálin og svo mætti lengi telja.

[11:15]

Virðulegi forseti. Það veldur mér ugg þegar svo stórum hluta fjármagns er varið af hálfu framkvæmdarvaldsins því þá erum við að skekkja þann ramma sem Alþingi ætlar fjárlögum að rúmast innan. Alþingi hefur eiginlega enga aðkomu að því. Er t.d. verið að skekkja þjónustumynd sjúkrahúsanna á landinu öllu? Við vitum að það er ekki hægt annað en draga að landi þær stofnanir og þau svið sem ríkið ber ábyrgð á og komin eru með halla. Þær stofnanir sem einhvern veginn, t.d. með niðurskurði á þjónustu eða öðrum aðgerðum, reyna að standa við fjárlög fá það í sjálfu sér ekkert bætt. Þær fara eftir því sem Alþingi hafði uppálagt þeim hvað þann hlut varðar, en kannski standa þær ekki að öllu leyti undir þeim körfum sem gerðar eru til þeirra verklega. Með fjáraukalögum getum við því verið að skekkja mynd, við getum verið að láta ákveðin atriði, ákveðin svið, ákveðin verkefni fá aukið vægi á kostnað einhverra annarra --- það hlýtur oft að gerast þannig --- sem Alþingi hefur ekki lagt blessun sína yfir fyrir fram.

Þetta leiðir hugann, herra forseti, að því hversu veik mér virðist staða Alþingis, löggjafans sjálfs, vera gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mér finnst hún vera allt of veik. Við eigum ekki að þurfa að standa frammi fyrir frv. til fjáraukalaga, eins og Alþingi stendur nú frammi fyrir, eins og gerðum hlut og við vitum að þetta er bara hluti af þeim gjörða hlut. Við stöndum í rauninni ekki frammi fyrir öðru en að samþykkja það svona til þess að öllum lagalegum hliðum sé fullnægt.

Virðulegi forseti. Ég tel að ráðuneytin og ríkisstjórnin hafi þarna verið í prófi, fjáraukalögin séu eiginlega samræmd próf. Við sjáum varðandi tekjurnar að þeir hafa kannski fengið 11, 12 eða 13. En varðandi gjaldahliðina, til að standa við hana eins og ráð var fyrir gert og að standa að framkvæmd fjárlaga eins og ráð var fyrir gert, þá væri sjálfsagt ástæða til þess að skipa sérstaka prófnefnd til að dæma um hvort þau hafi staðist prófið og ættu rétt á því að færast á næsta stig.

Ég ítreka að mér finnst að fjárlög eigi að vinnast þannig að ekki þurfi að leggja fram fjáraukalög með svona miklum frávikum.