Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 11:19:05 (1112)

1999-11-04 11:19:05# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[11:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er kunnur skólamaður og þekktur í þeim geira. Honum verður tíðrætt um samræmd próf. Menn verða að hafa það í huga að fjárlagatölurnar tekna- og gjaldamegin eru áætlunartölur, eins og stendur í fjárlögunum sjálfum. Það stendur í þeim að áætlað er að tekjur á þessu ári verði svo og svo miklar eða að útgjöld verði eins og þar segir. Því er auðvitað aldrei hægt að reikna með að það standist 100%. Og 3% frávik í gjöldum eins og hér er gert ráð fyrir í fjáraukalagafrv. er miklu minna en var á árum áður þó að ég auðvitað taki undir það að það ætti að vera minna, ætti að vera sem allra minnst.

Tekjurnar fara u.þ.b. 5,5% fram úr að því er best er vitað á þessari stundu og auðvitað er mikilvægt að þær hækka meira en gjöldin.

Ég vildi hins vegar nefna eitt atriði sem þingmaðurinn kom inn á, þ.e. að þingið standi frammi fyrir gerðum hlut, að framkvæmdarvaldið sé búið að ákveða hlutina og jafnvel eyða peningum án þess að Alþingi hafi þar haft nokkurn atbeina. Því miður er það þannig í okkar stjórnkerfi að menn verða að geta stjórnað landinu og ríkisstjórnin starfar í skjóli þingmeirihlutans. Hún verður oft og tíðum að taka ákvarðanir sem kalla á útgjöld fyrirvaralítið, en getur auðvitað gert það vegna þess að hún hefur stuðning þingmeirihlutans á bak við sig og getur gengið að því vísu að hún hafi stuðning fyrir þessum aðgerðum á Alþingi. Ef það kemur í ljós að svo væri nú ekki með eitthvert tiltekið atriði þá þyrftu menn auðvitað að hugsa mjög sinn gang, í það minnsta þeir menn sem ábyrgð bæru á því.

Ég nefni sem dæmi: Það þarf að vakta Kötlusvæðið alveg sérstaklega, Mýrdalsjökul. Það voru teknar ákvarðanir um að setja í það á þriðja tug milljóna. Það þurfti að gera það strax og það varðaði ýmsar stofnanir ríkisins. Þetta ákvað ríkisstjórnin að gera og að heimila útgreiðslu þessara peninga vegna þess að hún veit að hún hefur þingmeirihluta á Alþingi og getur treyst því að slíkar ákvarðanir njóta stuðnings meirihluta þingsins. (Gripið fram í: Hvernig skýrir það ...) Þetta nefni ég sem dæmi vegna þess sem hv. þm. nefndi, herra forseti.