Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 11:22:27 (1114)

1999-11-04 11:22:27# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[11:22]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Ég vil nefna annað atriði sem fram kom í ræðu hv. þm., herra forseti. Hann hélt því fram að hér væri eingöngu um að ræða þenslutekjur af auknum innflutningi. Hann hefur ekki hlýtt vel á mína ræðu vegna þess að ég fór yfir það að af þessum 10 milljarða tekjuauka sem frv. gerir ráð fyrir eru um það bil 4,5 milljarðar vegna aukinna tekna af tekjuskatti og eignaskatti, einkum þó tekjuskatti bæði einstaklinga og fyrirtækja en sömuleiðis einnig af fjármagnstekjum. Þessar tekjur eru vegna tekjubreytinganna í þjóðfélaginu en ekki vegna innflutnings. Auðvitað hafa innflutningstekjur líka aukist eins og ég rakti og veltan almennt í þjóðfélaginu. En aðalatriðið er --- ég vona að hv. þm. hafi tök á að hlýða á það, hv. þm.--- að óháð uppsveiflunni í þjóðfélaginu, óháð þeim tekjuauka sem ríkissjóður hefur af auknum umsvifum í þjóðfélaginu, þá er hann rekinn með afgangi. Þetta höfum við sannreynt í útreikningum að undanförnu og þetta á við bæði um næsta ár og þetta ár. Með öðrum orðum, þegar búið er að sveifluleiðrétta, eins og menn segja á lélegri íslensku, sveifluleiðrétta afkomu ríkissjóðs þá er hún samt sem áður réttu megin við strikið. Þetta er því ekki réttmæt gagnrýni sem fram er komin um það að ríkissjóður sé eingöngu að nærast á viðskiptahalla eða óeðlilegu ástandi í efnahagsmálum. Því fer fjarri.