Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 11:45:43 (1117)

1999-11-04 11:45:43# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[11:45]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1999 á síðasta ári var það harðlega gagnrýnt af stjórnarandstöðunni að ekki væri rétt gefið. Útgjöld væru vanáætluð t.d. til heilbrigðismála svo miklu næmi. Þetta hefur reyndar komið á daginn en ljóst að þetta á að bæta að nokkru leyti í fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. Þó hef ég mjög klára vitneskju um að tapið sem orðið hefur á árinu hjá ýmsum sjúkrastofnunum sem standa mér nærri er margfalt meira en fyrirhugað er að bæta í fyrstu útgáfu fjáraukalaganna.

Ég vil minna á að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem fær 21 milljón, er með margfalt meiri halla eftir árið. Það lá fyrir þegar í upphafi ársins að svo mundi verða. Ég vil því spyrja formann fjárln. hvort hann telji að úr þessu verði bætt milli umræðna um fjáraukalög.