Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 12:12:11 (1122)

1999-11-04 12:12:11# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[12:12]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það var margt athyglisvert í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Þó þótti mér tónninn vera eilítið annar en í ræðu samherja hans og samnefndarmanns í hv. fjárln. Gísla S. Einarssonar sem kvartar undan því að ekki sé nóg fjármagn sett í fjáraukalögin en kjarninn í ræðu hv. síðasta ræðumanns var að allt of miklir peningar væru settir í fjáraukalögin.

Vissulega er það svo að við þurfum að fara varlega í efnahagsmálunum um þessar mundir. Það vita allir og taka allir undir það og við verðum að hafa hemil á útgjöldum ríkissjóðs eins og hv. síðasti ræðumaður sagði. Eigi að síður er það jafnframt þannig að alltaf verða einhver ófyrirséð útgjöld sem verður að horfast í augu við og það er verið að reyna að gera það með þessum fjáraukalögum þó að þar með sé ekki sagt að málið sé endanlega afgreitt. Það á eftir að hljóta umfjöllun í fjárln. og ég er alveg viss um að þar verður bæði breyting á tekjum og gjöldum.

Ríkisstjórnin gerir það ekki að gamni sínu að grípa til útgjalda í skjóli þingmeirihluta síns nema nauðsyn krefji. Það vita allir hvernig þetta fyrirkomulag virkar. Hv. þm. hefur sjálfur setið í ríkisstjórn og aðstæður komið upp þar sem grípa hefur þurft til aukafjárveitinga.

Hann gagnrýndi ýmis einstök atriði í frv. Ég get tekið undir ýmislegt í því. Auðvitað þarf að tryggja það að stofnanir gangi ábyrgar til verks en eitt og annað í ræðu hans voru samt ekki góð dæmi eins og dæmið með forsætisráðherra Japans vegna þess að það lá ekkert fyrir hvort hann kæmi hingað fyrr en skömmu áður en hann kom. Það er þannig með slíka menn að þeir gefa það ekki upp endanlega hvort þeir eru væntanlegir eða ekki fyrr en skömmu áður. Það var því ekki gott dæmi.

Ég mun koma nánar að öðrum atriðum í síðara andsvari, herra forseti.