Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 12:14:32 (1123)

1999-11-04 12:14:32# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[12:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá hæstv. fjmrh. að kjarninn í ræðu minni hafi verið ákall um aukið fjármagn til rekstrar ríkisins. Það er alls ekki svo. (Gripið fram í.) Mér fannst að hæstv. ráðherra væri að segja það.

Það sem ég er að segja er að mér finnst að lausatök séu á rekstri ríkisins og mér finnast þau hafa aukist á síðustu árum. Ég sé til að mynda talsverðan mun á innihaldi og blæ þessara fjáraukalaga frá þeim tíma þegar ég sagt í ríkisstjórn. Það var að sönnu kreppa í landinu þá, en við eigum ekki að láta þá þenslu sem núna ríkir leiða til þess að ráðherrarnir kasti inn á fjáraukalagafrv. fjölda útgjaldatilefna sem eiga ekki heima þar. Ef við til að mynda afgreiðum beiðnir eins og ýmsar þær sem ég drap á í ræðu minni erum við að senda skilaboð til yfirmanna stofnana ríkisins. Skilaboðin eru þessi: Það er í lagi þó að þið farið gáleysislega með fjármuni ríkisins vegna þess að stóri bróðir, ríkisstjórnin, kemur með tékka skattborgaranna og hjálpar með það sem upp á vantar.

Kjarninn í ræðu minni, herra forseti, var að benda á að mér finnst að hæstv. fjmrh. beiti ekki agavaldi sínu, ég hika ekki við að segja það. Það þarf að taka til í ríkisrekstrinum, bæði í smáu og stóru. Ég ræddi sérstaklega um eitt tiltekið ráðuneyti, heilbrrn. Það er vandamál sem hæstv. fjmrh. og forverar hans hafa glímt við lengi. Menn töldu lengi vel að menn væru í þann mund að ná tökum á þeim málaflokki og umræður af hálfu stjórnarliða á síðustu tveimur þingum gáfu það til kynna. Nú hefur komið í ljós að þar hafa menn staðið á holklaka og staðan er miklu erfiðari. Ef hæstv. fjmrh. mundi biðja mig um einhverjar patentlausnir á því máli, þá mundi ég verða að segja: Ég hef þær ekki. En ég taldi að menn hefðu til að mynda á tilteknum sviðum, t.d. hvað varðaði heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, verið með vinnu í gangi sem mundi leysa það mál.