Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 12:16:43 (1124)

1999-11-04 12:16:43# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[12:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi það líka og ég hef orðið fyrir vonbrigðum í því efni en við erum að reyna að vinna okkur út úr því máli í sameiningu, heilbrrh. og ég með aðstoð Ríkisendurskoðunar. Að öðru leyti vil ég taka undir það sem hv. þm. sagði í ræðu sinni gagnvart einstökum ríkisstofnunum og nauðsyn þess að menn sýni aðhald og ábyrgð. Það er eins og talað út úr mínu hjarta. Ég var ekki að gagnrýna þingmanninn fyrir slík viðhorf, það hefur eitthvað skolast til.

Ég benti bara á að hann talar sem mikill aðhaldsmaður um ríkisrekstur en það er reyndar nokkurt nýmæli miðað við það hver á í hlut en félagi hans í fjárln. úr sama flokki mælti fyrir nauðsyn þess að stórauka útgjöldin og taldi að hér væri verulega vanáætlað og hér þyrfti að bæta í og augljóst mál að svo væri. Þessir ágætu samherjar eru því ekki alveg sammála.

Ég vil svara einu atriði sem hv. þm. nefndi og snýr að fjmrn. Það er spurningin um aukafjárveitingu til ríkisskattstjóra vegna skýrsluvélakostnaðar og hvers vegna ekki hefur verið settur maður í það mál. Það hefur verið settur maður í það mál. Við erum að sjálfsögðu að skoða hvernig hægt er að vinna bug á því vandamáli og reyna að sjá til þess að slíkt komi ekki fyrir aftur. Auðvitað er engin mynd á því að kostnaður af þessu tagi fari tugi eða á annað hundrað milljónir fram úr áætlun jafnvel þó á fleiri en einu ári sé og þarna verður auðvitað að gera mikla bragarbót. Hins vegar er mjög erfitt að áætla kostnað og allar breytingar sem við gerum á skattalögum á hinu háa Alþingi hafa t.d. áhrif á þennan kostnað. Við tökum hann kannski ekki alltaf með í reikninginn þegar við erum að gera slíkar breytingar hvað það hefur í för með sér að því er varðar skýrsluvélakostnað, forritun og annað þess háttar. En aðalatriðið er að sjálfsögðu að þarna verður leitað allra leiða til þess að halda kostnaðinum niðri svo mikill sem hann er nú orðinn.

Að því er varðar árið 2000 vil ég benda á að það var ekki sett inn í fjárlög þessa árs að því er varðar sjúkrahúsin vegna þess að þar voru uppi fáránlegar hugmyndir og tillögur af hálfu sjúkrahúsanna um mörg hundruð milljóna króna framlög í þessu skyni. Niðurstaðan, þegar öllu var á botninn hvolft og þegar búið var að reikna dæmið til enda, er það sem kemur fram hérna, 260 milljónir. Þar var það viturleg stjórn að bíða með þetta mál þangað til það skýrðist og kæmi endanlega í ljós.