Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 12:20:51 (1126)

1999-11-04 12:20:51# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þau fjáraukalög sem eru til umræðu gefa vissulega tilefni til að fjalla verulega um ríkisútgjöldin í heild. En vegna ummæla og fyrirspurnar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um það hvort við stjórnarmennirnir í fjárln. litum á það sem sjálfsagðan hlut að við stimpluðum allt sjálfkrafa sem væri vilji ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra þá er rétt að benda á að það er nú svo að einstakar ákvarðanir geta alltaf orkað tvímælis þegar þær eru teknar. En það er engin ástæða til annars en að hafa traust á ríkisstjórninni sem slíkri, það gerum við allir.

Ég hef hins vegar miklu meiri áhyggjur varðandi þetta frv. af þeim hækkunum sem mér sýnist stafa af því að nánast enginn hefur tekið um þær ákvarðanir. Það er sá hluti hækkananna sem veldur mér mjög miklum áhyggjum. (ÖS: Stjórnleysi.) Ég veit ekki hvort það er stjórnleysi, hv. þm. Við skulum líta t.d. á sjúkratryggingar. Skoðum sjúkratryggingar, sjáum hvað stendur þar í athugasemdum.

Á fyrri hluta þessa árs hefur kostnaður við lækningar hækkað um 43% miðað við sama tíma árið áður. Í skýrslum Tryggingastofnunar kemur fram að hækkanir á klínískum aðgerðum eru yfir 60% frá árinu áður. Þá er spurningin: Hver semur svona og hvernig er hægt að semja svona? Við lögðum þá spurningu fyrir forstjóra Tryggingastofnunar hvernig á þessu gæti staðið. Ég gat ekki skilið, herra forseti, svar hans öðruvísi en þannig að það mætti frekar kalla þetta nauðgun en samninga.

Það er mjög alvarlegt mál ef það liggur fyrir að stofnunum ríkisins er nauðgað. Það er grafalvarlegt mál. Við hljótum að horfa til þessara hluta og spyrja: Má vera að við höfum gert einhver mistök? Má vera að við höfum lent út á villigötur þegar við lögðum niður sjúkrasamlögin? Er hugsanlegt að við séum að gera rangt, að við höfum komið þessum hlutum í þann farveg sem við ráðum alls ekkert við?

Ég lít ekkert á þetta sem vandamál stjórnarsinna frekar en stjórnarsandstæðinga. Þetta hlýtur að vera vandamál framtíðarinnar sem öllum ber og allir verða að horfa til af mikilli alvöru. Það eru gríðarlegar hækkanir í þjóðfélaginu. Ég held að ekki sé hjá því komist að ræða þessar hækkanir. Við erum ekki að ráða við rekstrarkostnað ríkisins frekar en rekstrarkostnað sveitarfélaganna. Þetta eru staðreyndir sem við komumst ekkert fram hjá, menn þurfa ekkert að vera að þræta um þetta, þetta liggur fyrir ef menn skoða vísitölu samneyslunnar. Hún hefur hækkað meira en allar aðrar vísitölur á þessum áratug.

Ég er sannfærður um það, herra forseti, að ekki verði undan því vikist að viðurkenna að í kjarasamningunum 1997 voru gerð mistök. Reyndar held ég að best væri að orða það þannig að það hafi verið gerð röð af mistökum.

Til þess að skýra hvað ég á við held ég að rétt sé að fara aðeins yfir hvernig samningar eiga sér stað á Íslandi og hafa átt sér stað á undanförnum áratugum. Meðan þjóðfélaginu var handstýrt, þ.e. við vorum að stýra ýmsum efnahagsþáttum og létum markaðinn ekki ráða, stýra þáttum eins og verðlagningu á fiski og gengi o.s.frv., var mjög nauðsynlegt að við værum með miðstýringu á launum. Í þeirri ákvarðanatöku um laun var það algild aðferðafræði að það yrði að gera þetta þannig að fyrst væru allir hnútar hnýttir svo vel að menn treystu því að þeir röknuðu ekki upp og síðan samið, ekki öfugt. Það er ekkert nema eðlilegt við það í því þjóðfélagi sem við lifum í núna og í þeim miklu breytingum sem eru að eiga sér stað þegar við látum markaðinn svo miklu meira um ákvarðanir en áður að upp komi þær raddir meðal launþega að það eigi að hverfa frá þessari miðstýringu og fara út í fyrirtækjasamninga. Miklar kröfur hafa verið gerðar um það og það eru eðlilegar kröfur í sumum tilvikum þó skylt sé að fara varlega í þeim efnum.

Samninganefnd ríkisins og ríkisstjórnin tók ákvörðun um það að reyna að verða við einhverjum af þessum óskum 1997 og það var farið í valddreifingu varðandi samningana. Á almennum markaði, þegar við förum út í fyrirtækjasamninga og slíka valddreifingu, er það í vitund þess að markaðurinn, þ.e. hinn harði húsbóndi, hin harða samkeppni sé sá rammi og sá agi sem er bak við þann sem semur. Ef við gerum það sama í ríkisfjármálunum og dreifum valdinu verður það að vera á grundvelli þess að rammar fjárlaganna séu svo sterkir að þeir haldi. En ég held að það hafi sýnt sig að svo var alls ekki, þess vegna voru mistökin. Stofnanir ríkisins voru ekkert undir það búnar og voru margar hverjar alls ekkert undir það búnar að eiga í návígi um samninga auk þess sem ljóst er að á allt of mörgum stöðum er ekki litið á það af nærri því nógu mikilli alvöru að rammarnir haldi.

Þess vegna stöndum við uppi með það í dag að veruleg hækkun launa hefur orðið í samneysluvísitölunni umfram hinn almenna markað. Það hefur líka skapast ýmist misvægi, ég hef skoðað þær tölur, hjá ýmsum stofnunum á þróun launanna og það er enn þá alvarlegra. Menn skulu vita að nýtt misvægi í launum verður alltaf aflvaki nýrra krafna. Við stöndum því frammi fyrir mjög miklum vandamálum sem við þurfum að fara í gegnum af mikilli gætni og nákvæmni. Ég tel að ýmis ummæli verkalýðsforustunnar um þróun launamála eigi við mikil rök að styðjast og menn verði að hlusta á athugasemdir þeirra og gefa því gaum ef við ætlum að reyna að halda áfram á þeirri braut sem er svo þýðingarmikil, að það ríki friður á vinnumarkaðnum.

Um einstaka útgjaldaliði í frv. er það að segja að sannarlega eru þeir vandamál. Ég vil sérstaklega gera að umræðuefni ummæli hv. þm. Gísla S. Einarssonar um vanda sjúkrahúsa. Ég minni á að hæstv. fjmrh. fór yfir þessa hluti í upphafi máls síns í dag og sagði frá hvernig að þessu hefði verið staðið í fyrra. Faghópur var skipaður, farið var yfir hvert einasta sjúkrahús, að vísu hafa líklega einhverjar heilsugæslustöðvar verið skildar eftir, það lágu fyrir samningar, gamlar syndir voru hreinsaðar upp hjá öllum sjúkrahúsum nema fjórum þar sem ekki tókst að ná utan um hlutina en þar var líka skilinn eftir mjög stór pottur sem átti að skipta milli þeirra til að koma þeim á beina braut.

[12:30]

Það fer ekkert á milli mála að af hálfu fjmrn., hæstv. fjmrh. og þingsins var unnið af fullum heilindum að því að koma þessum hlutum í rétt horf og við værum með rétta tölu. Það að nú skuli þetta allt vera komið úr böndunum aftur er hlutur sem við komumst ekki hjá að fjalla um. Þá vil ég sérstaklega gera ummæli hv. þm. Gísla S. Einarssonar að umræðuefni því að hann sagði í hér pontu fyrir stuttu: Það ber að greiða það sem út af stendur. Við skulum nú skoða þetta aðeins nánar.

Það er mjög misjafnt hversu mikið sjúkrahúsin hafa farið fram úr á síðasta ári. Sum þeirra nánast ekki neitt. Mjög mörg þeirra hafa haldið sig alveg við fjárlagarammann. Önnur hafa farið mjög mikið fram úr, 20--25%. Það mætti stundum halda að það hafi verið gert vitandi vits. Ég er þó ekki að fullyrða það.

Þá er spurningin, herra forseti, hvað ætlum við að gera í lok ársins? Ætlum við að borga þeim sem fara 25% fram úr fjárlögunum þau 25% sem á vantar? Eru þá ekki allir hamingjusamir? En hinir sem fóru ekkert fram úr og héldu sig við lögin fá bara skammarverðlaunin. Í fyrra voru veitt skammarverðlaun, það voru tvö, þrjú eða fjögur sjúkrahús sem höfðu haldið sig alveg við fjárlögin. Það var Siglufjörður, Sauðárkrókur, Ísafjörður, ég held að þau hafi verið fjögur, ég man það ekki, þau fengu 1 millj. í skammarverðlaun, hin fengu þetta 10, 20, 30, 40, 50 og 60 millj. Ef við förum að ráðum hv. þm. Gísla S. Einarssonar þá á að endurtaka þetta núna. Hvað halda menn þá að verði gagnvart fjárlögunum 2000? Hvaða forráðamaður ríkisstofnunar á að láta sér detta í hug eftir slíka afgreiðslu að fara að lögum? Vonandi dettur engum það í hug. Það eru þá allir vissir um hver er vilji Alþingis. Það er að verðlauna þá sem fara ekki að lögum. Við sitjum því uppi með mjög mikinn vanda og við getum varla fjallað um það fyrr en skýrsla ríkisendurskoðanda kemur, hún mun koma eftir að ég ætla eina viku eða svo. Fjárln. hefur orðið sammála um að skoða fjárveitingar til allra heilbrigðisstofnana á undanförnum tveim árum, bæði fjárlög, fjáraukalög, svo og greiðslurnar úr hinum ýmsu pottum til stofnunarinnar og reyna að líta á þetta sem heild. Ég vonast því til þess að við 2. umr. fjárlaga geti fjárln. lagt fram yfirlit um hvernig þróunin hefur verið á þessum stofnunum og þá kemur til kasta þingsins að gera upp við sig hvernig það vill taka á þeim málum.

Ég er alveg sannfærður um það, herra forseti, að hægt er að beita meiri aga við þessar stofnanir en gert er. Fyrir 15 árum samþykkti þingið t.d. mjög mikla fjárveitingu til að tölvuvæða sjúkrahúsin til að þau væru í stakk búin til að veita allar þær upplýsingar sem til þyrfti svo þau gætu tekið upp nútímastjórnun á þessum flóknu stofnunum. Það liggur fyrir að á öllum þessum stofnunum eru til nánast allar upplýsingar sem til þarf til að stjórna eða réttara sagt sem til þarf til að meta á hlutlægan hátt kostnað þeirra. Af einhverjum orsökum, sem ég geri mér ekki grein fyrir, virðist vera mikill óvilji að taka upp þá skipan mála. En það er rétt að minna á, herra forseti, að t.d. í skólakerfinu, framhaldsskólunum hefur slík skipan mála verið við lýði nú í nokkur ár. Í haust voru gerðir samningar við Háskóla Íslands um þá skipan mála. Það er lífsnauðsynlegt að taka það upp á sjúkrahúsunum. Ég held að það þyrfti kannski ekki nema nokkurra mánaða vinnu sérhæfðra manna, verkfræðinga og stærðfræðinga til að ljúka því. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að gera það og ef til þess þarf mikið fjármagn skulum við vera reiðubúnir til að leggja það fram. Ég held að þingið eigi að gera það og ég held að þingið mundi standa að því ef þeir gerðu sér grein fyrir að þeir ættu þess kost.

Það er ekki síst nauðsynlegt fyrir sjúkrahúsin sjálf að hætta þeirri eilífu togstreitu, hætta þessu togi um fjárveitingarnar. Það er mjög nauðsynlegt fyrir landsbyggðina til að sjúkrahúsin sem þar eru eigi þess kost, hafi þau til þess metnað og faglega kunnáttu, að halda uppi því háa þjónustustigi úti á landsbyggðinni sem helst væri völ á. Það er mjög nauðsynlegt fyrir stjórnendurna sem þá geta farið að sinna einmitt því sem þarf að sinna, skipulagningu og fyrirbyggjandi ráðstöfunum og framtíðarplönum og hætta að eyða slíkri rosalegri orku, eins og sannarlega er verið að gera í dag, í að togast á um hvort það séu nú 10, 50 eða 100 millj. sem ákveðna stofnun vanti eða vanti ekki.

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að fara í gegnum þessi fjáraukalög. Víða er mjög ríflega veitt til stofnana. Að mínum dómi er verið að leggja t.d. um 1.800 millj. í rekstrargrunn sjúkrahúsanna, ekki 1.400 eins og stendur í textanum. Ég vil hins vegar gera athugasemdir við hvernig því fé er skipt. Ég vil fá tíma til að skoða það og gaumgæfa hvernig því er skipt í samráði við þann lista sem við áttum að vinna í nefndinni.

Það er líka ýmislegt í frv. sem vert er að skoða og ástæða er til að taka undir ummæli hæstv. fjmrh. og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að aldrei er nógu vel um vandað að menn skuli virða fjárlögin því að það er grundvöllurinn að því að við getum haldið áfram farsælu efnahagsstarfi, að fjárlögin séu virt og þau séu þeir rammar sem menn virða. Í sambandi við launin, þróun launanna og launasamningana er líka mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að ef við getum ekki treyst ramma fjárlaganna þannig að tryggt sé að þeir séu virtir, þá sé ég ekki annað ráð en við verðum að hverfa frá þeirri valddreifingu í ákvörðun launa sem við byrjuðum á 1997 og taka aftur upp miðstýringu þeirra hluta.