Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 13:42:00 (1128)

1999-11-04 13:42:00# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Til umræðu er frv. til fjáraukalaga. Í þessu frv. kemur fram að frá því að fjárlög voru lögð fram og síðan samþykkt í lok síðasta árs hefur komið í ljós að tekjur ríkissjóðs hafa aukist talsvert umfram það sem ráð var fyrir gert eða um 5,5%, tæpa 10 milljarða kr.

Hv. þm. Jón Bjarnason, fyrsti talsmaður okkar þingflokks, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, gerði þetta að sérstöku umræðuefni og vakti athygli á og lýsti áhyggjum yfir því að þessi tekjuaukning, þó hún væri gleðileg, væri að verulegu leyti þenslutengd og til komin vegna aukins innflutnings og ekki á traustum grunni reist. Þessu andæfði hæstv. fjmrh. og benti á að að hluta til væri þetta til komið vegna aukinna tekjuskatta fyrirtækja en hv. þm. Jón Bjarnason benti á á móti að einnig það væri þenslutengt.

Enda þótt það sé í sjálfu sér gleðilegt að tekjur ríkissjóðs skuli hafa aukist, það er gleðilegt fyrir okkur sem viljum traustar tekjur fyrir almannasjóði landsins, er það áhyggjuefni að fyrir þessu sé ekki innstæða þegar litið er til þjóðarbúsins í heild þegar fram líða stundir.

Einnig hefur komið fram að útgjöld ríkisins hafa aukist umfram það sem ráð var fyrir gert eða um 3,5--4%. Þegar farið er að rýna í þessar tölur kemur í ljós að þar eru stærstu útgjaldaliðirnir á sviði heilbrigðismála og menntamála. Á sviði heilbrigðismála erum við að tala um tæpa 3 milljarða kr. og tæpan einn milljarð þegar litið er til menntamálanna.

Einnig kom fram við þessar umræður, m.a. í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að um vanáætlun hefði verið að ræða og mikið af þessum útgjöldum eða útgjaldaauka sem við erum nú að ræða var fyrirsjáanlegur.

[13:45]

Sannast sagna velti ég því fyrir mér að hve miklu leyti sett eru fram óraunsæ fjárlög því við skulum ekki gleyma því að við búum við ríkisstjórn sem hefur það efst á blaði að umbylta ríkisrekstrinum, einkavæða það sem einkavætt verður. Og ég velti því fyrir mér hvort menn séu öllum stundum að búa í haginn fyrir þessar kerfisbreytingar og þá hugsanlega með óraunsæjum fjárlögum. Þetta eru nokkuð þung orð því að í reynd mætti skilja þau svo að þarna sé óheiðarlega að verki staðið. Ég vil ekki ganga svo langt að segja þetta. En ég velti því fyrir mér að hve miklu leyti hér sé pólitísk skýring á ferðinni og það væri fróðlegt að heyra viðbrögð hæstv. fjmrh. hvað þetta snertir.

Síðan er ljóst eins og komið hefur fram við þessa umræðu, að ekki eru öll kurl komin til grafar. Það er langt í frá. Menn eru meira að segja að gera því skóna að það muni verða umtalsverður halli á rekstri heilsugæslunnar, sjúkrahúsa og heilsugæslunnar almennt og þar kunnum við að vera að tala um upphæðir sem skipta milljörðum. Menn hafa nefnt 2 milljarða. Það kann að vera meira. Ekki eru öll kurl því komin til grafar í þessu efni.

Hæstv. fjmrh. sagði í sinni ræðu eða í andsvörum við ræðu einhvers þingmanns að hér væru á ferðinni áætlunartölur og að aldrei væri hægt að niðurnjörva fjárlögin því að margt væri ófyrirsjáanlegt. Þetta er rétt. Þetta eru orð að sönnu. Og það er líka rétt sem hann sagði, að á margan hátt hefur þetta orðið skýrari og markvissari áætlunargerð eftir því sem árin hafa liðið.

En ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra sagðist hafa traustan meiri hluta á bak við sig, það væri hægt að grípa til ráðstafana jafnvel á milli þinga því að ,,við vitum að við höfum traustan þingmeirihluta á bak við okkur.`` Þetta finnst mér vera áhyggjuefni fyrir stjórnarliða í þessum sal því hér er því lýst yfir að ríkisstjórnin hafi stjórnarliðið svo í vasanum að það sé nánast sama hvað sé ákveðið í Stjórnarráðinu, menn geti gengið að því sem vísu að hér verði allt samþykkt, að menn láti skipa sér svo fyrir verkum að það megi reikna með því að allt sem mönnum dettur í hug að framkvæma eða ákveða í ráðuneytum eða í Stjórnarráðinu almennt, verði samþykkt hér af stjórnarliðinu. Þetta kemur okkur reyndar ekkert á óvart sem höfum skipað raðir stjórnarandstöðunnar á undanförnum missirum því að þetta er alveg rétt. Þetta er staðhæfing sem stenst. En mér finnst það hins vegar vera áhyggjuefni fyrir þingræðið og ætti að vera áhyggjuefni fyrir stjórnarliðana þegar þessu er lýst yfir eins og hæstv. fjmrh. gerði hér.

Áætlunartölur, sagði hæstv. ráðherra, og hann hefur áður sagt um fjárlagafrv. að það væri í sjálfu sér efnahagsstærð, að það væri markmiðssetning í efnahagslegu tilliti og í pólitísku tilliti. Ég man ekki hvort hann orðaði það beinlínis svo varðandi pólitíkina, en hitt er ljóst að í fjárlagafrv. og í frv. til fjáraukalaga einnig er að finna mikla pólitík. Það er alveg rétt. Hér er að finna heilmikla pólitík og þarf ekki að fletta lengi til að koma auga á hana. Hér kemur t.d. fram að áætlað er að greiddar barnabætur lækki um 90 millj. kr. Hvernig stendur á því? Það er gert ráð fyrir því að lækka barnabæturnar frá því sem rætt var um á þinginu í fyrra og þetta er að gerast núna. Það er verið að leggja fram tillögu um lækkun á barnabótum, enda þótt, þegar fjárlögin voru til afgreiðslu á sínum tíma, mikil og hörð gagnrýni hafi verið af hálfu stjórnarandstöðunnar á að barnabætur og stuðningur við barnafólk hefði lækkað óeðlilega á undanförnum árum. Hér erum við að fá staðfestingu á því að þróunin heldur áfram. Í fjáraukalögunum er gert ráð fyrir að barnabætur lækki um 90 millj. kr. Hvernig skyldi standa á þessu? (Gripið fram í: Góðærið.) ,,Góðærið``, sögðu einhverjir, og það er að hluta til rétt vegna þess að hér er vísað til þess að laun hafi hækkað. En það sem átti að gerast og væri eðlilegt að gerðist, bæði með tilliti til barnabótanna og einnig skattleysismarkanna, er að þessi viðmiðunarmörk, þ.e. viðmiðunarmörk skattleysismarkanna, persónuafsláttar og barnabótanna, færðust upp með laununum þannig að stuðningur við barnafólk héldist óbreyttur að raungildi. En ríkisstjórnin er að spara á þessu fólki. Hún er að spara á lágtekjufólkinu. Hún er að spara á millitekjuhópum og hún er að spara á barnafólkinu.

Til hvers þarf að spara? Hvernig er sparnaðinum varið? Hvernig er því varið sem ríkisstjórnin sparar í barnabótum? Það kemur t.d. í ljós hér á bls. 126. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að veita 15 millj. kr. til kynningar á alþjóðlegum viðskiptafélögum.``

(Gripið fram í: Hver fær þessar milljónir?) Hver skyldi fá þessar 15 millj.? Það er Verslunarráð Íslands, það er viðskrn. Það er Verslunarráð Íslands og fjárfestingarstofnanir ... (Gripið fram í: -stofan.) Fjárfestingarstofan, afsakið, sem fær þessa peninga til að kynna svokölluð alþjóðleg viðskiptafélög. Og hvað er það? Hver eru þessi alþjóðlegu viðskiptafélög? Það eru svipuð fyrirbrigði og hafa sprottið upp víða um heim, í Karíbahafinu t.d., til þess að alþjóðleg fyrirtæki geti skotið sér undan því að greiða skatta. Þarna er nýsköpunin hjá ríkisstjórninni og það er þetta sem barnafólkið á Íslandi er að styðja, er að niðurgreiða. Það er sparað á barnafólkinu. Það er sparað á láglaunafólkinu og millitekjuhópunum til þess að menn hafi næga peninga handa Verslunarráðinu og þeim aðilum sem hafa í frammi áróður fyrir þær skattaparadísir sem hér er verið að koma á fót.

Síðan er það einkavæðingin og kerfisbreytingarnar. Við erum að ræða að hvaða marki þessar breytingar sem verða frá fjárlögum yfir í fjáraukalög eru fyrirsjáanlegar og að hvaða marki svo er ekki. Það sem er orðið fyrirsjáanlegt er að kerfisbreytingar í átt til einkavæðingar hafa í för með sér kostnaðarauka. Það kemur t.d. í ljós að farið er fram á 115 millj. kr. vegna mun hærri rekstrarkostnaðar skattvinnslukerfa en gert var ráð fyrir undanfarin tvö ár. Hver vinnur þetta? Það er Skýrr hf. Það er kvartað yfir því að taxtarnir hjá Skýrr hafi hækkað. Hvað hefur gerst hjá Skýrr? Hvað skýrir þessa breytingu? Það sem hefur gerst hjá Skýrr er að það var einkavætt. Það var byrjað á því að gera það að hlutafélagi. Svo var það einkavætt. Kostnaðarauki, þetta er ekkert nýtt. Og þótt við höfum þessi dæmi fyrir sjónum, þá á að halda áfram á þessari braut og nú óska ég eftir skýringum. Ég óska eftir skýringum frá talsmanni Framsfl. Ég óska eftir skýringum frá hv. þm. Jóni Kristjánssyni, talsmanni Framsfl. í fjárln., og að sjálfsögðu frá hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde. Hvaða áform eru uppi varðandi einkavæðingu og einkaframkvæmd innan velferðarþjónustunnar, í heilsugæslunni, í heilbrigðisþjónustunni og í skólum landsins?

Hæstv. menntmrh. hótaði því hér fyrir fáeinum dögum að gera börn í Hafnarfirði að sérstökum tilraunadýrum. (PHB: Lofaði því.) Hann lofaði því? Kannski er búið að lofa því inni í þingflokksherbergi Sjálfstfl. Hv. þm. Pétur Blöndal upplýsir hér að hæstv. menntmrh. sé búinn að lofa því að gera börn í Hafnarfirði að tilraunadýrum, að þar eigi að setja grunnskólana í einkaframkvæmd, að búið sé að lofa því að gera börn í Hafnarfirði, skólanema í Hafnarfirði að tilraunadýrum, að sérstöku tilraunaverkefni í tilraunastofu frjálshyggjunnar. Þetta finnst mér alvarlegt og þetta snertir þessa umræðu vegna þess að það er fyrirsjáanlegt að ef farið verður út á þessa braut þá mun það hafa kostnaðarauka í för með sér. Það er fyrirsjáanlegt.

Spurningin er hins vegar sú hvernig menn ætla að bera þennan kostnað, hvort það verður skattgreiðandinn þegar fram líða stundir eða, eins og ríkisstjórnin hefur reyndar hótað í sérstökum bæklingi um einkaframkvæmd, að það verði notandinn, börnin og sjúklingarnir væntanlega. Þetta segir í bæklingi sem þeir eru ábyrgir fyrir, hv. þm. Jón Kristjánsson og hæstv. fjmrh. Geir Haarde. Það er vitað og það er fyrirsjáanlegt og til þessa benda öll rök, allar staðreyndir, allar upplýsingar sem við höfum, að þetta fyrirkomulag er kostnaðarsamara og dýrara. En ríkisstjórnin bendir á það í sínum gögnum sem hún hefur sent út að þetta eigi að fjármagna að hluta til með notendagjöldum, með skólagjöldum þá væntanlega og sjúklingagjöldum. Þetta eru hlutir sem við þurfum að fá betur upplýsta núna í þessari umræðu og ég vona að bæði hv. þm. Jón Kristjánsson, talsmaður Framsfl. og hæstv. fjmrh. Geir Haarde gefi þinginu ítarlegar skýringar á því hvað standi til, hvað sé í pípunum í þessum efnum vegna þess, og það erum við að fá staðfest í því frv. sem hér er til umræðu, að þessar kerfisbreytingar leiða til kostnaðarauka. Ég hvet því til þess að við fáum rækilegar skýringar á þessu.

Aðeins áður en ég lýk máli mínu og lýk umfjöllun um þetta efni sem ég er að hringsóla hér um, þ.e. hvað sé fyrirsjáanlegt og hvað hafi ekki verið fyrirsjáanlegt, þá vekur það vissulega athygli varðandi lántökuheimildir Íbúðalánasjóðs, að þær aukast samkvæmt þessu frv. --- það kemur fram á bls. 7 --- úr 23,3 milljörðum rúmum í 30,6 milljarða rúma. Þetta er yfir 7 milljarða kr. aukning. Einnig þetta þótti okkur mörgum vera fyrirsjáanlegt vegna þess að greiðslumatið í íbúðalánakerfinu hefur tekið breytingum. Núna fá fleiri aðgang að lánunum. Þetta fyndust mér vera góðar fréttir ef ég hefði vissu fyrir því að það fólk sem er að taka lánin núna geti risið undir þeim skuldbindingum sem það er að takast á herðar. Það er þar sem áhyggjurnar liggja. Og sá sem ekki hefur áhyggjur af því þykir mér vera ábyrgðarlaus vegna þess að ég hef trú á því að það greiðslumat sem lánastofnanir studdust við á sínum tíma hafi verið býsna raunsætt. Ég mundi fagna því að fólk hefði aukinn aðgang að lánsfjármagni ef jafnframt væri búið svo um hnúta að það gæti risið undir skuldbindingunum. Þá er ég að tala um lága vexti eða afborgunarskilmála sem væru sniðnir með það í huga.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Þetta voru þær athugasemdir sem ég vildi koma á framfæri.