Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:01:02 (1129)

1999-11-04 14:01:02# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það voru nokkur efnisatriði í ræðu þingmannsins sem ástæða er til þess að svara. Hann gerði því skóna í upphafi að menn væru vísvitandi að leggja fram óraunsæ fjárlög með það fyrir augum að undirbúa einkavæðingu eða eitthvað álíka, að það væri einhver pólitísk stýring að þessu leyti til þó hann vildi ekki ganga svo langt að kalla þetta óheiðarleg vinnubrögð og ég er nú þakklátur fyrir það.

Auðvitað er það fjarri lagi að gera því skóna að menn geri viljandi út á einhvers konar óraunsæi í þessum efnum enda hefur það stórminnkað á undanförnum árum. Fjáraukalögin núna eru allt önnur en þau voru fyrir nokkrum árum síðan vegna þess að fjálögin sjálf eru miklu raunsærri en verið hefur. Auðvitað gera menn það ekki. Auðvitað reyna menn að gera þetta eins vel og nokkur kostur er.

Þá er spurningin um þennan trausta þingmeirihluta sem ég hef vikið nokkrum sinnum að í þessari umræðu, að hann sé áhyggjuefni fyrir þingræðið. En það er auðvitað þingræðið sjálft sem gerir það að verkum að við búum við svona stjórnarfyrirkomulag. Við búum við þingræðisstjórn sem starfar í skjóli meiri hluta þingsins. Ef hún tekur ákvörðun sem meiri hluti þingsins vill síðan ekki staðfesta þá þarf hún að hugsa sitt ráð, hugsanlega að víkja, eða einhverjir innan hennar. Þannig er nú þetta í eðli málsins eins og allir vita náttúrlega. Auðvitað þarf óhjákvæmilega annað slagið að taka ákvarðanir um fjárútlát sem eru óhjákvæmileg og ríkisstjórnin gerir það þá í trausti þess að hún hafi þingmeirihluta fyrir því. Komi annað í ljós þurfa menn að taka málið upp á nýjum forsendum.

Þingmaðurinn talar mikið um einkavæðingu og einkaframtak. Hann kemur varla svo í ræðustól að hann nefni ekki þau málefni. Ég hef ekki mikinn tíma í mínu fyrra andsvari til þess að svara því en ég mun gera það á eftir. En ég fullyrði að áhyggjur hans um að fyrir dyrum standi einhver ósvinna í því efni á velferðarsviðinu eiga ekki við rök að styðjast.