Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:07:42 (1133)

1999-11-04 14:07:42# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. beindi til mín fyrirspurn um hvaða áform væru uppi varðandi einkavæðingu og einkaframkvæmd í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Það hafa engin áform komið upp á borð fjárln. hvað þetta snertir. Það hafa ekki verið kynnt heldur í þingflokki Framsfl. nein áform um þetta.

Varðandi einkavæðingu almennt þá er bent á framlag til að standa straum af hækkuðum töxtum Skýrr. Mér finnst nú menn hrapa dálítið að þeim ályktunum að þetta sé vegna einkavæðingarinnar. Við munum að sjálfsögðu fara yfir það í nefndinni af hvaða orsökum þessar taxtahækkanir eru. En ég er ekkert kominn til með að segja um það hér að þessar taxtahækkanir hefðu ekki orðið þó að þetta væri ríkisfyrirtæki. Það er bara órannsakað mál sem við þurfum að fara yfir hvernig þessar taxtahækkanir myndast og af hvaða ástæðum þær eru því að þetta er veruleg upphæð í frv., yfir 100 millj. kr. Þetta er upphæð sem er alveg þess vert að horfa á og gera sér grein fyrir hvernig hefur myndast. Það kostar alveg gífurlega fjármuni að halda uppi þessum kerfum, enda eru þau risavaxin, sem fjmrn. hefur til þess að halda utan um sína starfsemi.