Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:09:32 (1134)

1999-11-04 14:09:32# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er ýmislegt skýrara og ljósara í þessum efnum en menn vilja vera láta. Arðsemiskrafa Skýrr er ljós og liggur fyrir. En hitt liggur ekki alveg fyrir, þ.e. að hvaða marki vegir Framsfl. eru rannsakanlegir.

Hv. þm. Jón Kristjánsson segir að einkaframkvæmdin og einkavæðingin innan velferðarþjónustunnar hafi ekki verið rædd, skildist mér, í Framsfl. Nú er það svo að einn hæstv. ráðherra Framsfl., heilbrrh., hefur tekið ákvörðun, þá væntanlega í góðu samráði við ríkisstjórnina, um að bjóða út gamla fólkið, þ.e. setja elliheimili inn í einkaframkvæmd. Þetta hefur væntanlega verið rætt í þingflokki Framsfl. og ég vildi gjarnan fá upplýsingar frá hv. þm. um hversu langt verður haldið á þessari braut. Einnig væri fróðlegt að heyra hans álit á þeirri yfirlýsingu --- loforði, segir hv. þm. Pétur Blöndal --- loforði hæstv. menntmrh. um að bjóða út skólana í Hafnarfirði, grunnskólann í Hafnarfirði, enda þótt vitað sé að þetta verði kostnaðarsamara, miklu dýrara og ávísun á misrétti þegar fram líða stundir. Gaman væri að fá nánari upplýsingar um þetta frá hv. þm. Jóni Kristjánssyni.