Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:13:19 (1137)

1999-11-04 14:13:19# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson að stjórnarmeirihlutinn væri tryggur. Það er nú þannig að hæstv. fjmrh. hefur mjög gott samband við sinn þingflokk og sinn samstarfsflokk og tekur ákvarðanir í samráði við þingmenn sem styðja ríkisstjórnina. Þetta frv. hefur að sjálfsögðu kosti og galla en ég met persónulega að kostirnir yfirgnæfi gallana.

Hv. þm. sagði að hæstv. menntmrh. hefði hótað að gera börn í Hafnarfirði að tilraunadýrum í ræðu sinni um daginn. Ég segi að hæstv. menntmrh. lofaði að gera tilraun til að breyta stöðnuðu kerfi sem skilað hefur óánægðu starfsfólki og jafnvel lélegri menntun, þannig að við lítum bara mismunandi á þessi orð hæstv. menntmrh.

Síðan sagði hv. þm. að barnabætur hefðu verið lækkaðar um 90 milljónir. Ég bendi á atvinnuleysistryggingabætur hafa líka lækkað um 350 milljónir. Annað er vegna þess að atvinnuleysi hefur minnkað. Þar af leiðandi hefur þeim fækkað sem þurfa atvinnuleysisbætur. Ég spyr hv. þm.: Er það slæmt? Hins vegar hafa barnabætur lækkað um 90 milljónir vegna þess að tekjur fólks sem fær barnabætur hafa hækkað umfram verðlag. Og ég spyr hv. þm.: Er það vandamál? Er það slæmt?