Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:37:50 (1142)

1999-11-04 14:37:50# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir málefnalega ræðu og fjölmargar athyglisverðar ábendingar í sambandi við það frv. sem hér er til umræðu. Ég næ ekki að svara þeim öllum við þetta tækifæri en ég skal gera mitt besta.

Að því er varðar fjárveitingar, sem þingmaðurinn spurðist fyrir um og rakti til Kjaradóms og kjaranefndar, er þar ekki um að ræða að heilar 600 milljónir renni eingöngu til þessa. Ég hygg að af þessari fjárhæð séu um 60 milljónir til komnar vegna ákvarðana Kjaradóms. Síðan eru rúmlega 250 milljónir vegna ákvarðana kjaranefndar og lúta að prófessorum, bæði Háskóla Íslands og Kennaraháskólans. Sambærilegar ákvarðanir eru að því er varðar presta, upp á rúmlega 80 milljónir, og ýmsa fleiri hópa. Þetta tekur sig saman upp í einar 600 milljónir. Á móti eru dregnar frá 350 milljónir af launa- og verðlagslið fjmrn. Þetta er því nettóaukning upp á 250 millj. kr. og auðvitað fyrir hendi nákvæm sundurliðun á því ef menn óska eftir, t.d. í fjárln.

Spurt var: Hefur fjmrh. áhyggjur af húsbréfaútgáfunni og var álits Seðlabankans leitað? Vissulega var álits Seðlabankans leitað eins og ég hygg að skylt sé að lögum en ég hef áhyggjur af þessu máli. Ég viðurkenni það fúslega. Ég tel að þarna geti verið heilmikil hætta á ferð að því er varðar aukningu þess fjármagns sem sett er út á markaðinn í þessu formi með tiltölulega hagstæðum kjörum. Auðvitað er þetta ein af uppsprettum lánsfjármagns og með þeim stærri í þjóðfélaginu. Þegar svona mikil aukning er í þessu hljóta menn að staldra við og velta því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á efnahagsástandið, á eftirspurnina og þar með á þensluna. Ég deili þeim áhyggjum þó ég sé ekki viss um að við séum sammála um viðbrögð við því.