Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:40:05 (1143)

1999-11-04 14:40:05# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Ég held að það fari ekki á milli mála að þessar 600 milljónir eru að mestu leyti til komnar vegna úrskurðar Kjaradóms og kjaranefndar. Það eru um 112 manns sem fá launabreytingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms og 800--900 samkvæmt úrskurði kjaranefndar. Mér fannst hæstv. ráðherra staðfesta það þó að hann héldi því til haga að nettóaukningin væri ekki nema 250 milljónir. Þetta er að stærstum hluta komið til vegna launaákvarðana Kjaradóms og kjaranefndar á þessu ári og það einungis fyrir hálft árið. Því er ekkert skrýtið að ég veki athygli á því að fyrir meira en 20 þúsund ríkisstarfsmenn er einungis gert ráð fyrir í næstu fjárlögum rúmlega 1,5 milljörðum kr. á móti um 600 milljónum sem ganga til þeirra sem fá launabreytingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms og kjaranefndar.

Ég er ekkert undrandi á því að hæstv. ráðherra hafi áhyggjur af útgáfu húsbréfa. En ég spyr hæstv. ráðherra, þar sem hann hefur áhyggjur af því og leitað er eftir heimild um 7,4 milljarða í útgáfuna: Mun hæstv. ráðherra grípa til einhverra aðgerða vegna þessarar útgáfu á húsbréfum? Ég hef sagt skoðun mína á því, að það sé vegna þess að greiðslumatið hafi verið rýmkað. Nú hefur hæstv. ráðherra verulegar áhyggjur af útgáfunni á húsbréfum. Hann leitað álits Seðlabankans á útgáfunni en mun ráðherrann núna grípa til einhverra aðgerða til þess að draga úr útgáfu húsbréfa? Mun hann beita sér fyrir því að greiðslumatið verði endurskoðað? Ég tel að helst megi rekja hina auknu útgáfu á húsbréfum til þess.