Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:44:45 (1145)

1999-11-04 14:44:45# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á nokkur atriði til viðbótar því sem áður hefur verið sagt af þeim hv. þm. Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni sem hafa þegar talað úr þingflokki okkar.

[14:45]

Í fyrsta lagi er það svo með margrómaðan tekjuafgang og bata ríkissjóðs að hann er eins og flestir eru sammála um og viðurkenna nema þá hæstv. fjmrh., ósköp hefðbundinn klassískur verðþenslubati og vel þekktur úr hagsögunni og sögu fyrri fjmrh. sem tekið hafa við ríkissjóði eða farið með hann við svipaðar aðstæður. Ég mæli með því að sjálfstæðismenn lesi eigin ræður frá árunum upp úr 1980 og fram til 1983 þegar þeir fóru hamförum á Alþingi, í báðum deildum þeirrar stofnunar sem þá starfaði þannig, og gerðu lítið úr þeim árangri í ríkisfjármálum sem þáverandi hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, væri að ná (Gripið fram í.) en hann skilaði ríkissjóði síðastur manna með umtalsverðum afgangi á einhverju árabili. (Gripið fram í: Það var misskilningur.) Nú heyri ég að menn kunna þessar ræður enn eins og hv. þm. Kristján Pálsson. Hann kann þessar ræður enn og man hvernig þeir höfðu það sem íþrótt að gera lítið úr því þá að ríkissjóður væri rekinn með afgangi, það væri ekkert að marka af því að það væri verðbólga. (Gripið fram í.) Já. Hún var að vísu ekki 100%, hv. þm. Það er allt eftir því hvernig það er reiknað. En það er alveg rétt að (Gripið fram í.) á þessum árum var vaxandi verðbólga og segja má, eftir því hvaða viðmiðanir menn velja sér, að hún hafi endað í 80--130%. En á árunum upp úr 1980 fór verðbólgan upp á við úr 10--20% á ári og upp í ein 30--40% eins og hún var á einhverjum árum og hér eru ýmsir sem kunna þetta.

Herra forseti. Til frekari skilningsauka á þeim aðstæðum sem myndast í tekjum og gjöldum ríkissjóðs og reyndar einnig hjá sveitarfélögum og fleiri slíkum aðilum á verðþenslutímabilum mæli ég með því að sjálfstæðismenn lesi eigin ræður frá því upp úr 1980. Þá munu þeir öðlast dýpri skilning á því að við þær aðstæður þegar eyðslan vex snöggt í þjóðfélaginu, þegar þjóðarbúið er rekið með viðskiptahalla og ríkissjóður tekur inn af því tekjur og þegar verðlagið innan lands kemur í kjölfarið, myndast ákveðið misgengi í tekjum og gjöldum en það er að sjálfsögðu aðeins bil sem þarna myndast. Útgjöldin fylgja síðan í kjölfarið og það er nákvæmlega það sem er að gerast núna.

Ég hygg að tekjuauki ríkissjóðs af þessum sökum, svo fremi sem verðbólgan fari ekki enn upp á við, sé að mestu leyti kominn fram. En útgjöldin eru að banka á dyrnar núna og þau eru að sjálfsögðu að gera það vegna þess að menn sækja þær hækkanir sem orðið hafa á aðföngum til baka og útgjaldatilefnin koma fram í rekstri stofnananna. Það gætir hins vegar tregðu hjá ríkinu og eftir atvikum hjá sveitarfélögunum einnig að viðurkenna þessi útgjöld og þau koma fram í byrjun sem halli á rekstrinum. En þetta mun einhver þurfa að borga og einhvern veginn. Þess vegna er það þannig, herra forseti, að það er alveg nauðsynlegt að menn gangi hægt um gleðinnar dyr og átti sig á því að þeir eru ekki endilega komnir í himnaríki um aldur og eilífð þó að í bókhaldinu standi ágætur afgangur á ríkissjóði eins og stendur vegna þess að þetta getur snúist við og að því kemur að þetta snýst við. Að því kemur að tekjurnar falla en útgjöldin halda áfram að aukast. Þegar farið er yfir vendipunktinn og á leiðinni niður brekkuna aftur hinum megin þá gerist það að tekjur ríkissjóðs falla en útgjöldin halda áfram að aukast enn um sinn vegna þess að útgjaldatilefnin eru óleiðrétt í pípunum.

Við skulum vona að við séum ekki komin á þann punkt og þó, ekki er heldur gott að þenslan haldi áfram og áframhaldandi verðbólga berji að dyrum.

Búið að finna upp nýtt hagfræðilegt hugtak, herra forseti. Það kom fram í stefnuræðu forsrh., þ.e. mjúk lending, og sýnir nú hvað hæstv. forsrh. og efnahagssérfræðingarnir eru miklir áhugamenn um flug að þeir hafa tekið þessa myndrænu líkingu að nú eigi að lenda efnahagslífinu mjúkt eins og breiðþotu sem silast niður á flugbrautina. En er það alveg víst að þetta sé svona auðvelt, þ.e. að finna sér eitthvert hugtak og trompa upp með það, að þá sé vandinn leystur? Svo er sagt við verkalýðshreyfinguna og þá sem ætla að reyna að berjast fyrir því að sækja eitthvað af batanum til handa láglaunafólki: ,,Nei, þið verðið að taka þátt í því að lenda hagkerfinu mjúkt.``

Er ríkissjóður að ganga á undan með góðu fordæmi og lenda hagkerfinu mjúkt og eru í raun innstæður að öllu leyti fyrir þeim fullyrðingum um trausta fjármálastjórn sem menn eru uppi með? Ég hef því miður miklar efasemdir um það, herra forseti. Ég held að margt vanti þar upp á og kannski ekki síst raunsæið. Ég verð að játa að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með vin minn hæstv. fjmrh. af því að ég hélt að hæstv. fjmrh. mundi kannski ganga fram sem talsmaður meira raunsæis í þessum efnum á fyrstu árum embættisferils síns og þó ekki væri nema vegna þess að það er að öllum líkindum langt í næstu kosningar þannig að það hefur ekkert upp á sig fyrir hæstv. fjmrh. að vera neitt að þykjast núna á fyrsta vetri í embætti sínu. Það er svo langt í kosningar að það er alveg borin von að það takist að halda neinum sjónhverfingum úti öll fjögur árin. Það væru þá mikil undur ef það tækist fram yfir kosningar í aðalatriðum að láta menn halda að allt væri í lukkunnar velstandi. En þær komu reyndar fljótt ræðurnar eftir kosningarnar um að nú væri ýmislegt sem þyrfti að taka á.

Ég hefði þess vegna talið að hæstv. fjmrh. hefði átt að leggja hlutina fyrir með því raunsæi að viðurkenna að við værum stödd á þessum kafla hagsveiflunnar eða á því gæti verið hætta að við værum nákvæmlega þarna og þar af leiðandi væri fullkomin ástæða til að hafa miklar áhyggjur af framhaldinu. Ég held að hæstv. ráðherra hefði átt að viðurkenna af meira raunsæi það sem er í pípunum, ekki reyna að fela áfram kostnaðartilefnin sem eru augljóslega fyrir hendi, t.d. í heilbrigðiskerfinu eins og allir vita og menn eru áfram að ýta á undan sér.

Nú er það svo að það er ekki bara hagsveiflan sem þarna hefur áhrif heldur erum við líka að taka í gegn ýmsar breytingar sem Alþingi og ríkisstjórn hafa ákveðið á umliðnum missirum, t.d. með kjarasamningum og með samningum um starfsmenn um framgang í störfum eins og samninga við hjúkrunarfræðinga og lækna, eins og samninga við háskólamenn um rannsóknarleyfi og annað því um líkt. En af einhverjum undarlegum ástæðum er þetta ekki nema að litlu leyti tekið inn í fjárlagafrv. og það vekur miklar spurningar. Hvers vegna er ekki af meira raunsæi horfst í augu við það sem liggur þó alla vega fyrir, er búið að ganga frá og menn munu ekki komast upp með annað en efna því ég geri ekki ráð fyrir því að menn reikni með því að geta til frambúðar hlaupist undan því að standa við framgangskerfi sem búið er að semja um sem hluta af kjarasamningum eða hvíldartímaákvæði sem menn verða að taka við frá hinu háa Evrópusambandi. Ekki þýðir að neita því. Það væri alveg eins og ætla að ráðast á guðspjöllin sjálf að ætla að vefengja það og það verðum við að efna. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að gera það og þó fyrr hefði verið, afnema t.d. það þrælahald sem vaktafólk í heilbrigðiskerfinu hefur búið við áratugum saman og er engu líkt, satt best að segja.

Þess vegna, herra forseti, las ég sérstaklega í gegnum það, og ég hlýt að gera það aðeins að umtalsefni hvernig er búið um þetta hjá stærstu stofnunum sem þarna er alveg augljóst að eiga fram undan mikil útgjöld, t.d. hvað það varðar að ráða inn fólk ef á að takast að standa að fullu við hvíldartímaákvæðin hjá vaktavinnufólki í heilbrigðiskerfinu. Það er alveg augljóst mál að það er slík grenjandi undirmönnum á t.d. stóru sérhæfðu stofnununum að þær geta ekki, nema þá að ráða nýtt fólk og bæta á sig verulegum launakostnaði, uppfyllt þessi ákvæði. Það er ekki hægt. Fólkið er ekki til staðar til að manna vaktirnar og hvað þá heldur að taka út frídaga á móti þeim tímum þegar ekki næst lágmarkshvíldartími eins og í raun á að vera grundvöllur kerfisins og þýðir að það þarf enn meiri mannskap en ella væri. Á meðan menn létu menn vinna þrátt fyrir að lágmarkshvíldartíma væri ekki náð og borguðu mönnum fyrir það var mönnunarvandinn ekki eins brennandi í þessu sambandi og fjármögnunarvandinn því að þá kostaði það vissulega peninga en ekki fleiri starfsmenn. Ef menn ætla hins vegar að komast í það framtíðarfyrirkomulag að menn taki út skort á eðlilegri hvíld í formi frídaga á eftir verður að bæta við mannskap og það kostar að sjálfsögðu peninga.

Herra forseti. Ég sé að þessu er mjög misjafnlega sinnt. Í mörgum tilvikum er alls ekki gert ráð fyrir útgjöldum sem liggur þó fyrir að verða. Að vísu er t.d. um það fjallað þannig hér svo ég taki stóru sjúkrahúsin, að í tilviki Ríkisspítala, Sjúkrahúss Reykjavíkur og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, er sagt að í framangreindum aukafjárveitingum til þessara stofnana sé ekki gert ráð fyrir kostnaðarauka af vinnutímatilskipun EES og verður sá kostnaður áætlaður þegar nánari upplýsingar liggja fyrir. Menn viðurkenna þó a.m.k. að þessi kostnaður kemur til með að falla á ríkið en það eru þá kannski ekki forsendur til að áætla nákvæmlega enn þá og gott og vel. Ég tek það fyrir gilt. Þetta segir um Ríkisspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur. En þar eru þó settar inn tölur í tilviki Sjúkrahúss Reykjavíkur 45 millj. kr., hækkun á fjárheimild til að hrinda í framkvæmd framgangsskerfi fyrir hjúkrunarfræðinga. Gott og vel. Við skulum ætla og vona að það dugi, að þessir hjúkrunarfræðingar fáist og þetta gangi upp.

Hjá Ríkisspítölum eru 55 millj. kr. settar í sama verkefni. Auk þess er farið fram á 55 millj. kr. í fjárheimild til að hrinda í framkvæmd framgangskerfi fyrir hjúkrunarfræðinga, stendur þar undir liðnum 371 Ríkisspítalar. Ég leitaði að þessu sama hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en fann það ekki. Þá versnar enn í því, herra forseti. Hvernig stendur á því að algerlega sambærilega settum stofnunum hvað varðar kjarasamninga og útgjöld af þessum sökum er mismunað? Þegar farið er betur yfir þetta kemur í ljós að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri fær 63 millj. í aukafjárveitingu til að mæta áætluðum uppsöfnuðum rekstrarhalla til ársloka 1991, gott og vel. Svo fær það 35 millj. í stofnkostnað sérstaklega vegna 2000-vandans, tölvumála og slíkra hluta, en ekkert, að séð verður á þessu, til að mæta framgangskerfi hjúkrunarfræðinga sem þó er áætlað fyrir nokkrir tugir milljóna hjá hinum stóru sérhæfðu sérgreinasjúkrahúsunum. Ég sé að þetta er nákvæmlega sundurliðað sem t.d. fer til hvers þáttar hjá Ríkisspítölunum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur, þar á meðal 411 millj. kr. til Ríkisspítala til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla til ársloka 1999, sambærilegt orðalag og er á aukafjárveitingum til FSA, 287 millj. til Sjúkrahúss Reykjavíkur til að mæta áætluðum uppsöfnuðum rekstrarhalla til ársloka 1999. Hvers vegna er þá ekki með sama hætti farið yfir stöðu annarra sérgreindra stofnana sem hafa hjúkrunarfræðinga á sínum snærum sem hafa samið um framgangskerfi? Hvernig stendur á því, hæstv. fjmrh., að stofnununum er mismunað? Það tel ég vera með öllu óþolandi. Hér eiga þá í hlut t.d. stofnanirnar á landsbyggðinni sem standa í harðri baráttu um að halda starfsmönnum sínum á þessum sviðum vegna þess að boðið er í þá héðan að sunnan. Ég held að hæstv. fjmrh. verði að gera svo vel að gera okkur grein fyrir því hvernig þetta mál er vaxið og ekki er hægt að sætta sig við það að stofnunum sé að því er best verður séð mismunað beinlínis hvað þetta varðar.

Herra forseti. Ég vona að engum detti í hug að misskilja orð mín svo að ég telji það eftir að þessir hlutir séu lagfærðir, t.d. hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík, að sjálfsögðu ekki. Staða þeirra er erfið og miklu meira en það þó að þetta komi til. En ég fer fram á að það sé alveg ljóst að ekki sé að þessu leyti verið að mismuna stofnunum sem eru sambærilega settar.

Herra forseti. Við skulum líta aðeins á menntageirann og bera niður í háskólastofnunum. Það er þannig að Háskóli Íslands á að fá 341,3 millj. samkvæmt frv. sem skiptast þannig, og svo er það talið upp. Í fyrsta lagi er lagt til að veittar verði 231,3 millj. kr. í aukafjárveitingu vegna kostnaðar sem leiðir af úrskurði kjaranefndar um laun prófessora. Í öðru lagi er lagt til að veittar verði 160 millj. kr. til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda Háskóla Íslands á árunum 1997--1999. Í þriðja lagi 10 millj. kr. framlag til þess að mæta tímabundnum erfiðleikum í fjármögnun á rannsóknarferðum háskólakennara. Síðan eru 60 millj. færðar af fjárlagalið skólans yfir á nýja fjárlagaliðinn, þ.e. ritlauna- og rannsóknasjóð prófessora.

Hvernig er svo Háskólinn á Akureyri meðhöndlaður í sambærilegum tilvikum? Lagt er til að fjárheimild skólans verði aukin um 29,5 millj. kr. og skýrist þannig að 30 millj. kr. eru til að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarhalla áranna 1998--1999. Á móti kemur að lagt er til að 0,5 millj. kr. verði færðar af fjárlagalið Háskólans á Akueyri yfir á nýjan fjárlagalið, ritlauna- og rannsóknasjóð prófessora. Rekstrarhallinn er bættur í báðum tilvikum en þar til viðbótar fær Háskóli Íslands umtalsverðar fjárhæðir vegna úrskurðar kjaranefndar um laun prófessora og vegna framgangskerfis og rannsóknarferða háskólakennara en Háskólinn á Akureyri ekki neitt. Nú vill svo til að ég veit að það sem stendur Háskólanum á Akureyri alveg sérstaklega fyrir þrifum núna er að nú er að koma að því að margir af fyrstu fastráðnu starfsmönnum Háskólans á Akureyri eiga orðið inni rannsóknarleyfi vegna þess að stofnunin er komin á þann aldur og með þann þroska. Hverju sætir þá, herra forseti, að hæstv. fjmrh. skuli leggja fram frv. sem ekki verður betur séð en mismuni beinlínis stofnunum hvað varðar meðferð þessara hluta? Hv. formaður fjárln. má vel heyra orð mín líka.

Eru það þá einmitt stofnanirnar á landsbyggðinni sem eru svo vel á sig komnar í þessum efnum að þær megi við því að á þær halli í þessum þáttum sem skipta alveg sköpum um að fá þetta fólk til starfa úti á landsbyggðinni? Það er ekkert leyndarmál, herra forseti, að stóru sérhæfðu stofnanirnar á Akureyri standa í hörðum slag um að halda hjá sér eða fá til sín vel menntað starfsfólk og það er nógu erfiður slagur eins og hann er þó að svona hlutir bætist ekki við. Ef það á að verða þannig að vegna launaþenslunnar á vinnumarkmaðinum á þessu svæði fái opinberar stofnanir betri og meiri fyrirgreiðslu hvað þetta varðar, einmitt varðandi fastráðin og samningsbundin launakjör starfsmanna hins opinbera, þá kastar það tólfunum. Það er til að bíta höfuðið af skömminni, herra forseti. Ef eitthvað ætti að vera þyrfti þetta að vera heldur á hinn veginn, þ.e. að stofnanirnar sem þarna eiga í erfiðleikum við að halda í horfinu og ná til sín mannskap fengju það að einhverju leyti viðurkennt að þær starfa við þær aðstæður að ef eitthvað er, þá þarf að gera betur til þess að fá þar jafnhæft fólk til starfa.

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. fari yfir þessi mál eða svari til um þetta hvort þetta sé virkilega svo að frv. sé beinlínis lagt fram á þessum forsendum að þarna eigi að afgreiða stofnarnir með mismunandi hætti og ef svo er, þá verði það að sjálfsögðu leiðrétt og það hið snarasta. Nóg er nú samt.

Auðvitað mætti fara yfir fleira, herra forseti. Mér sýnast ýmis fleiri ráðuneyti gera sig sek um sambærilega hluti. Ég gæti tekið t.d. iðnrn. og endurgreiðslur eða styrki til uppbyggingar hitaveitna á köldum svæðum. Það vekur athygli mína að þar fær t.d. ein tiltekin hitaveita þá fyrirgreiðslu sem talað hefur verið um að þær fái, þ.e. ígildi þess sem áður kostaði að greiða niður húshitunarkostnað með raforku í formi framlags, einsskiptis framlags sem nemur fimm ára niðurgreiðslum á raforkunni og er það gott. Ég fagna því að Hitaveitan í Stykkishólmi fær slíka meðhöndlun. En af hverju fá þetta ekki aðrar sambærilega settar hitaveitur sem hafa sótt um nákvæmlega hið sama? Ég nefni sem dæmi Hitaveitu Dalvíkurbyggðar vegna sérstakrar hitaveitu á Árskógsströnd. Hvers vegna fær hún ekki sömu fyrirgreiðslu eða þess vegna Hitaveitan á Kópaskeri? Hvernig stendur á því að hlutirnir eru, að því er best verður séð, meðhöndlaðar með mismunandi hætti?

Herra forseti. Eitt er að deila um almennar forsendur, góðæri, verðbólgu og annað slíkt og hvernig hlutirnir standast í almennu samhengi en annað er hitt ef menn standa frammi fyrir því að það á beinlínis að mismuna aðilum innan hins opinbera kerfis. Það gengur ekki. Slíkt gera menn ekki, herra forseti.