Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 15:07:07 (1147)

1999-11-04 15:07:07# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. fjmrh. hefði þá átt að útbúa frv. betur og hafa skýringar þannig að unnt væri að lesa annað út úr hlutunum en hægt er miðað við núverandi framsetningu málsins samkvæmt orðanna hljóðan. Það er alveg augljóst að ef maður les þetta bókstaflega þá er það þannig. En ég hef auðvitað meira fyrir mér í málinu en það. Ég hef að sjálfsögðu kannað það hjá forsvarsmönnum viðkomandi stofnana hvernig þeir meta þessa hluti og þeir líta ekki svo á að þeir séu að fá sambærilega meðhöndlun og þessar stofnanir. Ég vona þá að farið verði rækilega ofan í saumana á því hvernig þessir hlutir liggja og treysti því að hv. fjárln. geri það. Mér finnst þetta ekki skynsamleg framsetning eða ekki góð. Það er lágmark að þetta verði sundurliðað með sama hætti gagnvart sambærilegum stofnunum þannig að hægt verði að lesa það út úr forsendum frv. hvort þær eru jafnsettar að þessu leyti eða ekki.

Í raun viðurkenndi hæstv. fjmrh. hvað varðaði Háskóla Íslands að hann væri að fá þarna fyrirgreiðslu vegna samningsins sem þar hefur verið gerður og það er vel og ég fagna því eins og ég fagna því að aðrar stofnanir, þegar búið verður að samningsbinda útgjöld af þessu tagi hvort sem það eru rannsóknarleyfi eða framgangskerfi, fái sitt viðurkennt. En fyrir Háskólann á Akureyri hefur ekki náðst slíkur samningur og ég held að hæstv. fjmrh. ætti að kynna sér áður en hann gleypir við því eins og flugu að þetta reiknilíkan verði lausn allra meina hvað varðar það að ákvarða fjárveitingar til háskólastofnana t.d. sem starfa við þær aðstæður sem háskólastofnanir á landsbyggðinni gera. Þar er langur vegur frá tel ég, herra forseti, að menn hafi höndlað sannleikann. Þvert á móti er ástæða til að hafa af því miklar áhyggjur að slík stöðlunarhugsun að taka eigi nemendafjöldann og deila honum upp í fjárveitingarnar og finna út einhverja reikniform\-úlu, færi mönnum heim sannleikann í þessum efnum þar sem stofnanirnar starfa við gerólíkar aðstæður. Það þarf að taka mikið tillit til þeirra ólíku aðstæðna ef þær eiga að fá sanngjarna meðhöndlun, herra forseti.