Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 15:09:34 (1148)

1999-11-04 15:09:34# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Því miður er greinilegt að hv. þm. hafði ekki fylgst með ræðu minni áðan. Þá gerði ég grein fyrir því að fjárln. hygðist fara yfir það sameiginlega og samstaða er um það í nefndinni að fara yfir fjárveitingar sjúkrahúsa í fjáraukalögum 1998 og 1999 og fjárlögum 2000 ásamt pottunum vegna þess að við vildum hafa fyrirvara á skiptingu ráðuneytisins til hinna ýmsu stofnana.

Það er alveg rétt sem kom fram í ræðu hans, eins og ég var búinn að gera grein fyrir, að það er ákveðin misvísun sem við viljum skoða.

Það er líka rétt að gert er ráð fyrir því að framgangskerfið verður sérstaklega bætt bara í tveimur sjúkrahúsum. Ég vil meina að þær bætur ættu bara við um það að styrkja almenna rekstrargrunninn. Hins vegar átti framgangskerfið, eins og kom líka fram í ræðu minni, ekki að vera launahækkun að neinu verulegu leyti heldur var um starfsmannamál að ræða sem fór úr böndunum eins og mjög margt annað hjá ríkisstofnunum varðandi þetta nýja fyrirkomulag á launum. Það er ákveðið að bæta það. Það er vilji ríkisstjórnarinnar og ég geri engar athugasemdir við það. En auðvitað verður það þá bætt alls staðar. Þetta liggur alveg fyrir og um þetta hélt ég að öllum væri kunnugt, alla vega í fjárln., að við ætlum að hafa algjöra samstöðu um að vinna þetta svona.