Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 15:43:24 (1158)

1999-11-04 15:43:24# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Fyrir réttri viku síðan stóð hæstv. fjmrh. í öðrum ræðustól vestur á Sögu á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar las hann um 400 sveitarstjórnarmönnum pistilinn og lét þá heyra að rekstur þeirra gæti ekki gengið til frambúðar. Viðvarandi hallarekstur hjá sveitarfélögunum væri þannig að ekki yrði við unað á sama tíma og hann og ríkisstjórnin hefðu komið böndum á ríkisútgjöld.

Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, hv. þm. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, tók þetta eðlilega óstinnt upp og ræddi málið af hreinskilni við hæstv. ráðherra. Hann vakti m.a. athygli á því að staða sveitarfélaganna er sú að í þeirra sjóði vantaði milli 2 og 3 milljarða kr. vegna skattalagabreytinga sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á Alþingi hefur staðið fyrir. Því er mjög auðvelt að draga þær ályktanir að í þessu frv. til fjáraukalaga sé þörf á, við meðhöndlun og umfjöllun fjárln., að bæta sveitarfélögum þennan tekjumissi á yfirstandandi ári.

Ég vil því nota tækifærið og kalla eftir því frá hv. þm. Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni hvort þessi skilningur minn sé ekki réttur, hvort hann vænti þess ekki að meiri hluti Alþingis bæti sveitarfélögunum þennan tekjumissi sem er vissulega mikill eins og fram kom í sameiginlegu áliti forsvarsmanna ríkis og sveitarfélaga fyrir skömmu. Ég held að það sé einn og hálfur mánuður síðan eða svo. Það væri fróðlegt að fá það fram. Auðvitað skiptir miklu máli hvort við erum að tala um upphæðir í fjáraukalögum upp á 5,5 milljarða, 7,5 milljarða eða jafnvel 8 milljarða, sem væri niðurstaðan ef sveitarfélögunum yrði bættur skaðinn eins og ætla mætti af áliti nefndarinnar sem ég gat um áðan.

[15:45]

Að vísu kom það raunar fram þegar hæstv. fjmrh., að mér fannst með óréttmætum hætti, hélt því fram að þessi vandi og annar vandi sveitarfélaganna yrði leystur einhvern tíma seinna í tekjustofnanefnd sem sett hefur verið á laggirnar að frumkvæði hæstv. félmrh. Formaður þeirrar nefndar, hv. þm. Jón Kristjánsson, gerði hins vegar glögga grein fyrir því á þessum sama fundi að það væri ekki á verkefnasviði þeirrar nefndar að leysa þennan bráða vanda sveitarfélaga heldur þyrfti það að vera pólitísk ákvörðun þingmeirihlutans á hinu háa Alþingi, hæstv. fjmrh. og fólks hans. Því kalla ég eftir því við þessa umræðu hvort þess sé að vænta að hæstv. fjmrh., með þennan trygga þingmeirihluta að baki sér, kalli eftir ríkisstjórnarsamþykkt sem verði síðan komið inn í meiri hluta fjárln. og við fáum málið til 2. umr. með þessa 2 eða 3 milljarða til viðbótar til að bæta skaða sveitarfélaganna.

Það er líka einkar athyglivert og fróðlegt að heyra viðhorf hv. þm. Gunnars Birgissonar til þessa atriðis sérstaklega, manns númer tvö á lista þeirra í Reykjanesi og oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi. Hins vegar er líka athyglivert í þessu samhengi af því að svo kemur sami hæstv. fjmrh. í þennan ræðustól viku síðar, eftir að hafa lesið sveitarstjórnarmönnum pistilinn og þá einkum og sér í lagi, herra forseti, flokksbræðrum sínum og systkinum í nágrannasveitarfélögum því að í árbók sveitarfélaga fyrir árið 1999 kemur fram svart á hvítu að það eru flokkssystkini hans í nágrannasveitarfélögunum sem eru fyrst og síðast ábyrg, ef hægt er að nota það orð, fyrir þeim geigvænlega halla sem er á rekstri sveitarfélaga. Því miður sker heimabær minn sig algerlega út úr með hallarekstur upp á 1,2 milljarða kr. á árinu 1998 og með heildarskuldir sem hlutfall af skatttekjum hvers árs upp á 183%. Kópavogur kemur þar litlu á eftir. Í Hafnarfirði, vil ég árétta, er meiri hluti og hefur verið frá vordögum 1998, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Þeir sömu ráða hér ríkjum í fjármálum ríkissjóðs.

Í Kópavogi er hið sama uppi á teningnum þar sem með völdin fara sjálfstæðismenn og framsóknarmenn og hafa gert um nokkurt árabil. Þar er auðvitað skuldaaukning geigvænleg og hallarekstur einnig tilfinnanlegur upp á 250 millj. kr. á árinu 1998 en skuldir hins vegar 157%, heildarskuldir sem hlutfall af skatttekjum hvers árs. Hér er hæstv. fjmrh. fyrst og síðast að skamma eigin flokksmenn og það segir okkur allt um þá mýtu sem sjálfstæðismenn hafa reynt að halda á lofti, þau sparigluggatjöld, um að þeir séu snillingar í fjármálum. Ég segi enn og aftur, herra forseti, svo kemur þessi sami fjmrh. í þennan ræðustól og býður hv. þm. upp á það í mesta góðæri Íslandssögunnar að biðja hið háa Alþingi um að stimpla og viðurkenna umframeyðslu upp á 5,5 milljarða kr. Það er ákaflega létt í vasa gagnvart mér að vísa til tekjuþróunar og þess að eftir sem áður geti ríkissjóður sæmilega vel við unað því að hann skili jákvæðri afkomu í árslok þrátt fyrir þennan nýja útgjaldaauka því að ef maður skoðar aðeins tímabil þessarar endurnýjuðu ríkisstjórnar, þ.e. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, Framsóknar og íhaldsins, og skoðar tölurnar frá 1994, þá hafa tekjur, herra forseti, tvöfaldast. Niðurstöðutölur frv. 1994 voru 103 milljarðar, niðurstöðutölur frv. sem hæstv. ráðherra kynnti fyrir nokkrum vikum eru 113 milljarðar. Hann hefur tvöfalt fleiri krónur handa í milli núna en þegar íhald og Framsókn tóku við valdataumunum um miðjan þennan áratug. Það segir heilmikið, herra forseti.

Ef maður skoðar útgjaldaþróunina undir sömu formerkjum þá er ógnvekjandi þróun þar á ferðinni, það verður að segja þá hluti eins og þeir eru. Útgjöldin eru núna samkvæmt frv. fyrir árið 2000 upp á 190 milljarða, voru samkvæmt frv. 1994 113 milljarðar. Sem betur fer hafa þau vaxið eilítið minna en tekjurnar en útgjaldaþróunin er alveg skýr og ljós og það eitt er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að það er auðvitað auðveldara er bæta í en skera niður og margt af því sem menn eru að festa í sessi í ríkisrekstrinum er þannig að ekki verður þrautalaust og býsna erfitt pólitískt að vinda ofan af þegar harðnar á dalnum í efnahagskerfi okkar sem hlýtur óhjákvæmilega að gerast. Það held ég að við hljótum öll að viðurkenna og horfa á með nokkru raunsæi.

Talandi um þann ágæta hv. þm. Pétur H. Blöndal, þá var hinn rauði þráður í ræðu hans sá, að það er stjórnunarvandinn sem gerir það að verkum að útkoman er með þeim hætti sem blasir við okkur. Það er stjórnunarvandi. Hverjir stjórna þessu fyrirtæki, Íslandi hf.? Hann situr hér, hæstv. fjmrh. Geir Haarde. Það er líka merkilegt til þess að hugsa þó að þar fari toppurinn á pýramídanum að þá skuli þeir ekki láta svo lítið hæstv. fagráðherrarnir, sem eru auðvitað jafnsekir og jafnábyrgir fyrir þessum framúrakstri og hæstv. fjmrh., að gera svo mikið sem reka inn nefið hér, ekki svo mikið sem reyna að bera það við að útskýra með einhverjum þeim gildu rökum umfram það sem segir í hinum skrifaða texta af hverju þessi framúrakstur stafi. Það segir mér líka dálítið um hvernig tengslum þings og framkvæmdarvalds er komið í þessum efnum að fagráðherrarnir eru svo öruggir með sig og þennan mikla þingmeirihluta að þeim dettur ekki einu sinni í hug að reka inn nefið, eiga orðastað við þingmann eða annan um þær niðurstöðutölur sem blasa við okkur.

Hæstv. heilbrrh., sem ber ábyrgð á annarri hverri krónu sem fram úr er keyrt með, hefur ekki sést nema ef vera skyldi í mýflugumynd þegar umboðsmaður Alþingis var kjörinn, ber það ekki við að gera okkur hv. þm. grein fyrir því hverjar orsakirnar séu í þessum efnum. Það eru vissulega margar skýringar sem menn hljóta að horfa til og taka mark á. En maður gerir þó kröfu til þess að þeir sem standa ábyrgir fyrir framúrakstrinum reyni a.m.k. að koma og eiga við okkur orðastað um ástæður þessa. Enn þá er þó ekki svo illa fyrir okkur komið, hæstv. fjmrh. situr hér bekkinn og þessa umræðu og gerir sitt besta. En við skulum glöggva okkur á því að nýskipan fjármála er þannig í þessari rammagerð fjárlaga að fagráðherrarnir eru miklu minna ábyrgir nú en fyrr og leiðslan milli fjmrn. og einstakra ráðuneyta er lengri en var á árum áður. Tæki og tól fjmrn. eru því kannski minni og veigaléttari en þau voru ekki fyrir margt löngu. Bak við það getur hæstv. fjmrh. skýlt sér en það breytir þó ekki hinu að hér er um stjórnunarvanda að ræða, ekki stjórnunarvanda hjá einhverri stofnun úti í bæ, ekki stjórnunarvanda hjá einhverri óskilgreindri stjórn úti í bæ því að það er einfaldlega þannig að eftir höfðinu dansa limirnir og höfuðin á þessu fyrirtæki, á þessu kompaníi eru í þessum sal, á þessum vettvangi og þess vegna erum við að ræða þessi mál undir þeim formerkjum sem hér eru.

Herra forseti. Ég ætla að stikla á stóru og nefna örfá atriði sem innlegg inn í umræðuna. Ég ætla að hlaupa hratt yfir röksemdafærslu með ólíkindum á borð við þá sem heyrðist hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal þegar hann lagði að jöfnu lækkun útgjalda vegna atvinnuleysisbóta og lækkun útgjalda vegna barnabóta. Hann lagði með öðrum orðum að jöfnu bætur til barna og bætur til fólks sem hefur ekki vinnu. Það mætti á sama hátt segja sem svo að það væri sennilega lausnin á útgjöldum vegna barnabóta að fækka einfaldlega börnunum eins og hinum atvinnulausu. Það dettur auðvitað engum í hug. Hér er um grundvallarmismun að ræða og auðvitað er það þannig hvernig sem menn velta því fram, upp og niður, út og suður að útgjöld til barna í þessu landi hafa lækkað hlutfallslega. Auðvitað er það þannig að það er verk okkar hér og mannanna verk og pólitísk ákvörðun hvar þessi frítekjumörk eru sett, hvar byrjar að skerða í barnabótakerfinu, hvar byrjar að skerða í vaxtabótakerfinu og væri það raunverulegur pólitískur vilji þingmeirihlutans að leggja gott til barnafjölskyldna í landinu þá mundi hann breyta því tekjuviðmiði. Það er hins vegar ekki gert og engar tillögur uppi um slíkt og það er veruleikinn sem blasir við okkur og hann birtist í því að það eru 14 þúsund fjölskyldur, ef ég man rétt, sem njóta nú ekki barnabóta sem gerðu það áður. Þetta er sá veruleiki sem við okkur blasir og almennt tal um hagsæld og góðæri svarar ekki þeirri áleitnu pólitísku spurningu um hvar í forgangi eru barnafjölskyldur í landinu.

Síðan koma menn og segja: Útboð, einkavæðing er allra meina bót. Að vísu rekst hvað á annars horn í því og í þessu ráðuneyti sem hefur bólgnað talsvert mikið, fjmrn., eins og raunar öll önnur ráðuneyti og hefur fjölgað þar mjög sérfræðingum af ýmsum toga, þar sem sendar eru skýrslur og greinargerðir í stórum stíl og þykkum bunkum um mikilvægi þjónustusamninga, um mikilvægi útboða og því um líkt, fengum við upplýsingar í svari við lítilli fyrirspurn frá hv. þm. Gísla S. Einarssyni um auglýsingar og auglýsingagerð hjá Lánasýslu ríkisins og þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa. Þar hafa án útboðs verið greiddar 273 millj. kr. til eins fyrirtækis á síðustu sjö árum. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki sé búið að stoppa þá sprautu, hvort ekki sé búið að skrúfa fyrir þann krana þó hér er kannski um lítið mál að ræða og þó ekki, 273 millj. kr. eru ekki litlir peningar í þessu samhengi, og ég spyr bara hreint og beint: Er ekki búið að skrúfa fyrir þennan krana? Er ekki búið að auglýsa útboð á þessari þjónustu?

Ég spyr líka: Er þörf fyrir öll þessi útgjöld til að auglýsa ágæti ríkisverðbréfa og Lánasýslu ríkisins, að það þurfi að kosta til milli 30 og 50 millj. á ári hverju til að koma ágæti þeirra á framfæri við almenning og þegar upp undir helmingur af kostnaði á hverju ári fer eingöngu í gerð auglýsinganna? Eða eins og var á síðasta ári, 1998, að auglýsingagerðin kostaði 14,5 millj. en auglýsingabirtingin eingöngu 17 millj., þá spyr maður sig um forgangsröðun og skynsemi í stjórn peninga. Þetta nota ég sem dæmi um það hvernig menn segja eitt og gera allt annað.

Ég ætla að taka annað dæmi um það sem birtist okkur líka þegar menn koma hér og hafa hátt um ágæti skipulagsbreytinga og frelsi markaðarins. Ég átti orðastað við hæstv. utanrrh. fyrir nokkrum missirum um þær breytingar sem áttu sér stað þá á rekstri Leifsstöðvar. Oftar en ekki hafa framsóknarmenn hælt sér af því í þessum ræðustól og í fjölmiðlum að þær breytingar hafi gerbreytt rekstrarumhverfi Leifsstöðvarinnar. Hvað sjáum við í dag í hinu gamla blaði þeirra framsóknarmanna, Degi Tímanum, um hver var niðurstaðan á þessari búsýslu allri saman? Þegar saman er lagt versnaði reksturinn. Menn veltu bara þessum fjármunum til og frá milli reikninga og niðurstaðan var sú að afkoman hefði versnað þrátt fyrir þessa snilld, þrátt fyrir þessa nýju uppgötvun um frelsi markaðar, einkavæðingu o.s.frv.

Herra forseti. Stundum er það nefnilega þannig að haldnar eru margar og merkilegar ræður um ágæti markaðar og frelsis en þegar til á að taka og menn skyggnast bak við tjöldin er ekki allt eins og virðist vera í fljótu bragði.

Ég vil í skeytastíl af því að tíma mínum er senn lokið, herra forseti, kasta fram nokkrum fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. Vel getur verið að hann hafi ekki tök á að svara þeim en hann er einn til svara. Fagráðherrar eru ekki hér á vettvangi. Ég vil spyrja vegna þess að það hefur komið fram í fjölmiðlum og verið gefið til kynna að þrátt fyrir hækkanir til lögreglunnar í Reykjavík sé svo komið að til að mynda fíkniefnadeild lögreglunnar sé að lenda í miklum peningavandræðum og vandræðum vegna yfirvinnukostnaðar vegna þess að upplýst hafi verið stór fíkniefnamál. Veit hæstv. fjmrh. af því og er þess að vænta að það verði enn þá bætt í til þess að koma í veg fyrir að þar þurfi að loka dyrum?

Ég vil líka spyrja vegna talna sem er að finna í þessu frv. og vekja menn til umhugsunar. Annars vegar er reynt að stemma stigu við þenslu í byggingariðnaði og hins vegar var notuð heimild í fjárlögum yfirstandandi árs til kaupa á Sölvhólsgötu 11 upp á 174 millj. Hvað lá á í því samhengi að þyrfti að festa kaup á því húsi núna og hvað með notkun á því húsnæði?

Ég tek undir líka að mér finnst dálítið kjánalegt og ég spyr hvort í fjárlagafrv. upp á góða 190 milljarða eða þar um bil þurfi að ganga á eftir hverju einasta ráðuneyti með ósk í fjáraukalagafrumvarpi um einhverjar 1 eða 2 millj. kr. vegna skólagjalda barna starfsmanna sendiráðanna í Brussel? Er virkilega ekki borð fyrir báru í ráðuneytunum til þess að mæta slíkum útgjaldastærðum? Þarf að renna aftur í þessu frv. til fjáraukalaga tölur á borð við 1 eða 1,2 millj. kr. til þess að börn starfsmanna ráðuneytisins í Brussel geti gengið í skóla? Ég spyr. Mér finnst það vera þess eðlis að það gæti átt við í litlu sveitarfélagi úti á landi en ekki hjá hinum stóra ríkissjóði að ekki sé borð fyrir báru og svigrúm til þess að mæta slíkum óvæntum útgjöldum án þess að renna því í gegnum hið háa Alþingi.

Herra forseti. Hér mætti flytja langt mál og ég kem aðeins örfáum atriðum að en kjarni málsins er þessi, í mesta góðæri Íslandssögunnar er við stjórnunarvanda að etja, þar er við þann vanda að etja að enn þá eru menn að eyða langt umfram heimildir Alþingis.