Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:06:01 (1160)

1999-11-04 16:06:01# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:06]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Vandi sveitarfélaga, hallarekstur þeirra og meint inneign þeirra hjá ríkissjóði vegna skattalagabreytingar fellur ekki undir þessa umræðu, segir hæstv. ráðherra. Ég spyr: Hvenær er það á dagskrá ef ekki núna? Vandinn er til staðar, hefur skapast á þessu ári og hugsanlega einhverjum missirum áður. Er það við fjárlagagerðina sem hæstv. ráðherra mun beita sér fyrir því að finna þar póltíska lausn? Það er annaðhvort hér við fjáraukalagaafgreiðsluna eða við afgreiðslu fjárlaga komandi árs sem við hljótum að taka á því máli, ef yfirleitt á að taka nokkuð á því. Hér er um bráðavanda að ræða sem sveitarfélögin eiga við á degi hverjum. Hér eru hv. þm. á borð við Gunnar Birgisson og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem kljást við þennan vanda og ég hygg að hið sama gildi um þá eins og mig að það er ákaflega létt í vasa og dugir mér ákaflega skammt þegar hæstv. ráðherra segir: Það verður á öðrum vettvangi sem menn leysa úr því vandamáli. Á hvaða vettvangi er það þá? Um önnur atriði ætla ég ekki að orðlengja en þakka hæstv. ráðherra fyrir tiltölulega greið svör.