Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:10:09 (1163)

1999-11-04 16:10:09# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, VÞV (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna eindreginna tilmæla hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar get ég ítrekað það sem ég sagði í ræðu minni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var fyrir viku. Þar sagði ég að vegna ýmissa skattalagabreytinga sem skert hafi tekjustofna sveitarfélaga um um það bil 2 milljarða eða svo þá þyrfti að gera breytingar á tekjustofnum þeirra. Ég mæltist á þessari ráðstefnu til að það yrði gert þannig að það byrjaði að virka í upphaf næsta árs.

Ég sagði líka að ég teldi mikilvægt að ríki og sveitarfélög gerðu með sér samstarfssáttmála sem tækju á ýmsum þáttum varðandi stjórn efnahagsmála. Ég tel mikilvægt að efla slíkt samstarf milli ríkis og sveitarfélaga. Ég sagði einnig að með efldum tekjustofnum, hugsanlegum samdrætti í framkvæmdum, eins og við er hægt að koma hjá sveitarfélögunum og aukinni hagræðingu þá gætu sveitarfélögin verið rekin án halla á árinu 2000. Það tel ég mjög mikilvægt markmið, ekki bara hjá sveitarfélögunum heldur ætti þetta að vera sameiginlegt markmið ríkis og sveitarfélaga, að sveitarfélögin geti sinnt lögskyldum sínum þannig að ekki þurfi að gera það með lántökum. Ég hef fulla trú á því að samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga um þessa þætti og mun vinna að því að svo verði.