Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:22:23 (1172)

1999-11-04 16:22:23# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mikið. Þeir voru langir sex mánuðirnir í Hafnarfirði árið 1998 frá miðjum júní til ársloka og þeir voru afdrifaríkir fyrir það bæjarfélag. Þar snarhækkuðu skuldir og rekstur fór algjörlega úr böndum og hefur hallað á hinn verri veg á yfirstandandi ári. Ég hugsa með hryllingi til þeirra niðurstöðutalna sem við sjáum úr þeim bæjarreikningum. En gott og vel með það.

Það sem hins vegar tengir það annarri umræðu sem hér hefur eðlilega verið uppi á borðum varðandi þessa fjáraukalagatillögu eru tilraunir bæði ríkisvaldsins og einstakra sveitarfélaga, nú síðast Hafnfirðinga, íhaldsmeirihlutans þar í bæ, til að falsa þessa erfiðu og lélegu afkomu með því að láta einhverja aðra byggja skólana fyrir sig og láta einhverja aðra reka skólana fyrir sig og geta því þannig falið þessar skuldbindingar í bæjarreikningum og dreift þeim á næstu 30--40 ár. Þannig gera menn sem eru komnir í þröng út í horn og ráða ekki neitt við neitt.