Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:30:32 (1176)

1999-11-04 16:30:32# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í 50. gr. þingskapalaga segir að utan dagskrár á Alþingi geti forseti leyft að tekið sé fyrir málefni sem er svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar formlegra þingmála. Ég fæ ekki séð, herra forseti, að það málefni sem hér er tekið til umræðu sé þess eðlis að það rúmist undir þetta ákvæði. Ég vildi hins vegar ekki koma í veg fyrir að umræðan færi fram, enda hafði upphafsmaður hennar gefið til kynna á opinberum vettvangi að hann ætti það erindi helst á Alþingi að reisa íslenska menntakerfið úr rústum.

Hv. þm. hefur kosið að ræða um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna. Nýlega var gefin út evrópsk samanburðarskýrsla um stuðning við námsmenn í ýmsum Evrópulöndum. Af þeirri skýrslu má ráða að sú skipan mála sem gildir hér á landi í þessu efni þykir í mörgu tilliti til fyrirmyndar. Þar er m.a. vísað til fjárhagslegs sjálfstæðis námsmanna, þess að íslenskir námsmenn sjálfir en ekki foreldrar þeirra hafa rétt til að taka lán og upphæð lánanna miðast við tekjur námsmanna og stöðu þeirra en ekki fjárhag foreldra. Þá tekur íslenska námslánakerfið ríkara tillit til félagslegra aðstæðna námsmanna en önnur sambærileg kerfi.

Lánasjóður ísl. námsmanna stendur traustum fótum fjárhagslega og er staða hans allt önnur í lok þessa áratugar en hins síðasta þegar stefndi í gjaldþrot sjóðsins eins og kunnugt er. Vegna þessarar traustu stöðu hefur jafnt og þétt verið unnið að því að rýmka hag viðskiptavina sjóðsins þótt seint verði unnt að uppfylla allar óskir þeirra.

Nokkrar umræður hafa farið fram um túlkun á því ákvæði í lögum um sjóðinn að við það skuli miðað að námslán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi sendur. Er grunnframfærsla skilgreind í úthlutunarreglum sjóðsins og er hún nú 62.300 kr. á mánuði. Í upphafi árs voru sambærilegar tölur á Norðurlöndunum 63.405 kr. í Svíþjóð, 60.453 í kr. Noregi og 61.654 kr. í Danmörku. Það skal tekið fram að hér er um lágmarksupphæð að ræða en til viðbótar er tekið tillit til framfærslu barna og maka og ýmiss kostnaðar, svo sem vegna ferða og skólagjalda. Auk þess er námsmönnum með reglum sjóðsins gefinn kostur á að auka ráðstöfunarfé sitt með vinnu þar sem einungis helmingur tekna umfram frítekjumark, sem nýlega var hækkað um 35% og er nú 250 þús. kr., kemur til skerðingar á láni. Með því að afla sér vinnutekna getur námsmaður því drýgt ráðstöfunarfé sitt eða komist hjá óþarfa skuldasöfnun.

Námsmaður skaut ágreiningi um túlkun á framkvæmd ákvæðis lánasjóðslaganna um grunnframfærsluna til málskotsnefndar sem felldi úrskurð sinn 18. maí sl. og komst að þeirri niðurstöðu að úthlutunarreglur sjóðsins brytu ekki á nokkurn hátt í bága við lög hans né aðrar reglur sem um sjóðinn gilda.

Hv. þm. spyr hvort ég muni beita mér fyrir könnun á grunnframfærslu námsmanna. Þegar í maí sl. fól stjórn lánasjóðsins sérstökum starfshópi sínum að gera tillögur í þessu efni. Hann fjallar um framfærslugrunn námsmanns í leiguhúsnæði. Þar verði tekið mið af meginflokkum neyslukönnunar Hagstofu Íslands og tillögum fulltrúa námsmannahreyfinganna í stjórn lánasjóðsins. Er það stefna stjórnar sjóðsins að frá og með vori árið 2000 verði stuðst við þennan grunn við árlega endurskoðun grunnframfærslu lánasjóðsins að teknu tilliti til meðaltekna lánþeganna. Lánasjóðurinn aflar sjálfur upplýsinga um meðaltekjur og meðalleigukostnað lánþega. Varðandi aðra liði í framfærslukostnaði verða skilgreind eðlileg viðmið til að ákvarða lágmarkskostnað með hliðsjón af framfærslutölum Hagstofu Íslands. Starfshópur stjórnar lánasjóðsins sem vinnur að þessu mikilvæga verkefni mun ljúka störfum fyrir næsta vor og af minni hálfu mun ég bíða eftir niðurstöðu þessa starfs.

Spurt er um hækkun frítekjumarks. Ég hef eins og fyrr segir beitt mér fyrir hækkun frítekjumarksins um 35% á þessu ári, úr 185 þús. kr. í 250 þús. kr. Réttur námsmanna til námslána hefur verið rýmkaður á þessu ári og einnig skólagjaldalán en hámark samanlagðra lána vegna skólagjalda var fyrr á árinu hækkað um 170 þús. kr. Áfram verður unnið að því að taka á einstökum þáttum í því skyni að bæta hag lánþega. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna lánasjóðsins hækki um 140 millj. kr. að raunvirði en endanleg fjárveiting veltur á endurskoðaðri fjárhagsáætlun sjóðsins.

Varðandi skattskyldu húsaleigubóta lít ég þannig á að það sé mál sem heyri í sjálfu sér ekki undir menntmrh. eða Lánasjóð ísl. námsmanna heldur þá sem fara með húsnæðismál á vegum ríkisstjórnarinnar og skattamál.