Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:42:50 (1180)

1999-11-04 16:42:50# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Enn þá einu sinni eru málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna rædd utan dagskrár á hinu háa Alþingi. Er eitthvert sérstakt tilefni nú? Ég segi nei.

Það er vert að rifja upp að náðst hefur nokkur sátt um starfsemi sjóðsins eftir breytingar sem gerðar voru á lögunum árið 1997. Þá var komið verulega til móts við gagnrýni stúdenta og ýmsar lagfæringar gerðar til hagsbóta fyrir námsmenn, m.a. með lækkuðum endurgreiðslum námslána og málskotsnefnd sem sker úr ágreiningsmálum og síðan í kjölfarið var frítekjumarkið hækkað. Það væri réttara að beina sjónum að því að á Íslandi er gott námslánakerfi sem tekist hefur að treysta verulega á síðustu tveimur kjörtímabilum og nú er svo komið að önnur lönd renna hýru auga til okkar kerfis og telja það vert eftirbreytni, eins og segir í nýútgefinni skýrslu á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Ísland er í fararbroddi í samfélagi þjóðanna með tilliti til jafnréttis til fjárhagslegrar námsaðstoðar og í samanburði við önnur lönd er íslenska námslánakerfið skýrt og einfalt og öllum aðgengilegt. Fá önnur kerfi ef nokkur taka jafnmikið tillit til aðstæðna hvers einstaklings eins og það íslenska þar sem hér er tekið mið af tekjum námsmanns og maka en ekki einnig tekið tillit til tekna foreldra eins og gert er í flestum Evrópulöndum. Upphæð námsaðstoðar virðist einnig vera í hærra lagi hér á landi í samanburði við aðrar þjóðir. Þetta er til marks um það góða kerfi sem er við lýði hér á landi og nær væri og vissulega tilbreyting að umræður hér í dag snerust um þetta í stað venjulegra harðlífisumræðna um málið.