Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:47:12 (1182)

1999-11-04 16:47:12# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:47]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Vissulega er tilefni til að ræða framfærslukostnað námsmanna þó að hæstv. ráðherra kveinki sér undan því eins og hann gerði í upphafi máls síns. Það er mjög óvanalegt að gerðar séu slíkar athugasemdir eins og ráðherran gerði í sínu máli. Formaður þingflokks sjálfstæðismanna kveinkar sér líka undan þessu og talar um að það sé ekkert tilefni til þess, en það er tilefni til þess þegar stór hluti námsmanna er á leigumarkaðnum. Þeir hafa þurft að sæta gífurlegri hækkun á leiguverði á síðustu mánuðum, upp í 20%. Þeir hafa líka þurft að búa við það, Félagsstofnun stúdenta sem byggir leiguíbúðir, að vextir á leiguíbúðum til þeirra hafa þrefaldast á þessu ári. Þeir þurfa að búa við, ekki bara skattlagningu á húsaleigubótum, heldur líka að skattlagning húsaleigubóta skerðir barnabætur og líka námslán. Og þá komum við að hæstv. ráðherra, vegna þess að það er í höndum stjórnar LÍN að ákveða hvaða tekjur skerða námslán. Stjórn LÍN hefur ákveðið að húsaleigubætur skerði námslán. Það er sem sagt í höndum ráðherrans og stjórnar LÍN að ákveða þegar, á þessari stundu, að húsaleigubætur skerði ekki námslánin. Vegna þess að ef húsaleigubætur skerða námslánin þá getur það munað fyrir námsmann sem samsvarar námslánum fyrir einn mánuð. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því? Ég spurði hann um þetta fyrir ári síðan, þá var hæstv. ráðherra ekki tilbúinn til þess. Við höfum búið við þær breytingar sem orðið hafa á leigumarkaðnum, því er fullt tilefni til þess að ráðherrann beiti sér fyrir því að þetta teljist ekki til tekna í námslánum. Ráðherrann sagði þá að hann væri tilbúinn að beita sér fyrir því að veitt yrði viðbótarlán hjá LÍN vegna mikils húsnæðiskostnaðar, er hann a.m.k. tilbúinn að ganga svo langt að gera það?