Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:49:18 (1183)

1999-11-04 16:49:18# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna fullyrðinga hv. málshefjanda sem mér finnst náttúrlega bara ekki alveg í standi, langt frá því, fullyrðingar um að grunnframfærsla sé allt of lág og við brjótum lög í lánasjóðnum og kerfið sé vinnuletjandi. Þetta er eiginlega allt bara ómögulegt.

En staðreyndirnar eru nú kannski öðruvísi. Lánasjóður ísl. námsmanna er félagslegur jöfnunarsjóður og kannski hinn mesti í nokkru kerfi sem styrkir námsmenn í heiminum. Hæstv. ráðherra rakti það í ræðu sinni hér í upphafi.

Upphaflega kveikjan að þessu skildist mér vera framfærsla námsmanna. Hjá lánasjóðnum er að störfum nefnd sem heitir framfærslunefnd. Hún fer yfir framfærsluþörf námsmanna hverju sinni. Það var gert núna sl. vor og voru gerðir útreikningar þar að lútandi og allir vita hvernig niðurstöðurnar voru, grunnframfærsla var hækkuð. Það má líka minna á að verið er að tala um að framfærsla námsmanna þyrfti að vera eins og annars fólks í landinu. Ég vil benda á í því sambandi að atvinnuleysisbætur eru 62.020 kr., Félagsþjónusta Reykjavíkurborgar greiðir 58.000 kr. á mánuði í framfærslu, að auk heldur hafa námsmenn tekjur af sinni atvinnu sem betur fer. Ef við berum okkur saman við önnur lönd þá er lánasjóðurinn með fyrstu einkunn. En ég segi enn og aftur og tek undir með hæstv. ráðherra og formanni menntmn. að ég skil ekki þetta upphlaup sem hér er í gangi núna.