Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:53:36 (1185)

1999-11-04 16:53:36# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Vegna þess að Lánasjóður ísl. námsmanna virðist hafa gefist upp á því að meta hina raunverulegu framfærsluþörf með öðrum hætti en að setja það í einhverjar undirnefndir, hefur skapast það ástand að framfærsla námsmanna, sú upphæð sem þeir fá, ræðst vissulega af aðstæðum ríkissjóðs hverju sinni eins og varla er komist hjá, en einnig af pólitískum geðþótta þeirra sem stjórna lánasjóðnum, bæði hinum pólitísku fulltrúum sem sitja í stjórn hans og ekki síður hæstv. menntmrh. á hverjum tíma, samanber litlu hækkunina í vor rétt fyrir kosningar og aðrar þær sporslur sem hæstv. menntmrh. hefur lagt fram í lánasjóðinn þegar honum hentar. Þetta er slæmt. Þetta er slæmt vegna þess að hætta er á því að námsmenn fylgi ekki eðlilegri þróun í samfélaginu í launum, og það er líka slæmt vegna þess að frítekjumarkið virðist vera ákvörðun út í loftið sem þýðir að menn lokast af. Í staðinn fyrir að venjulegur námsmaður fjármagni sig með hæfilegri blöndu af námslánum og eigin tekjum þá bregður í tvö horn, sumir reyna að bjarga sér með námslánunum einum og aðrir treysta þá ekki á námslánin og aðeins á eigin tekjur. Þetta er slæmt m.a. vegna þess að þetta tefur nám námsmannanna og gerir nýtingu námsins verri, bæði fyrir námsmanninn og samfélagið. Og þetta er slæmt vegna þess að þetta getur gengið í góðæri og þenslu eins og við búum við núna. Að minnsta kosti flestir námsmenn geta bjargað sér með nokkrum hætti. En hvað ef að skyldi kreppa? Hvernig búi er hæstv. menntmrh. þá að skila okkur og framtíðinni í menntun í landinu?