Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 17:00:19 (1188)

1999-11-04 17:00:19# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvin G. Sigurðssyni að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi og jafnframt held ég að það yrði virkileg nauðsyn að taka þetta mál upp núna, einkanlega sökum þess að eins og fram kom í máli hans þá hefur framfærslugrunnurinn ekki verið tekinn til endurskoðunar í 25 ár. Það er aukin heldur löngu tímabært sem umhverfi námsmanna undanfarna mánuði hefur tekið stökkbreytingum, einkum er varðar húsaleigu og annað er lýtur að því að stunda nám. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að þetta mál sé tekið til umræðu akkúrat núna og undrast mjög kvein hæstv. menntmrh. undan því að þetta mál sé tekið upp, tilvitnun hans til þess að þessi umræða eigi ekki við eða uppfylli ekki skilyrði þingskapa um mál sem eru tekin til umræðu utan dagskrár. Jafnframt því að vitna til þessara laga þá vitnaði hann ekki til þess að það er krafa á LÍN að endurskoða framfærslugrunninn en, virðulegi forseti, hæstv. menntmrh. vildi ekki fjalla um það sérstaklega. Enn fremur vakti sérstaka eftirtekt mína kvein hv. formanns þingflokks Sjálfstæðismanna undan umræðunni sem ég gat ekki séð að færði gæfuleg rök fyrir því að þetta mál ætti ekki að taka til umræðu. Greining hv. þm. Gunnars Birgissonar, sem er að er ég best veit formaður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, var þess eðlis að ég er ekki miklu nær.

Virðulegi forseti. Menntun er fjárfesting til framtíðar og jöfnuður til náms er eitt af því sem við leggjum mikla áherslu á og til þess er lánasjóðurinn stofnaður. Ég vil enn og aftur ítreka þakkir mínar til hv. þm. fyrir að taka þetta mál upp og vona að hæstv. menntmrh. geri bragarbót í seinni ræðu sinni.