Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 17:02:31 (1189)

1999-11-04 17:02:31# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), Flm. BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka fyrir umræðuna. Hún er góð og gagnleg og ég fagna því að menntmrh. lýsti því yfir að í burðarliðnum væri grunnframfærslukönnun þar sem væntanlega yrði leitt í ljós hvernig málum er virkilega háttað. Kjarni málsins er sá að hið lága frítekjumark og lág aðstoð við námsmenn veldur því að nám er að verða að forréttindum þar sem fjöldi fólks hrekst nú þegar frá námi vegna þessa lága frítekjumarks og hinna lágu námslána. Eins og áður sagði bitnar þetta sérstaklega á efnaminna fólki og fólki utan af landi sem á ekki kost á húsnæði þar sem það getur búið í heimahúsum. Það er mál að aðför Sjálfstæðisflokksins að jafnrétti til náms linni og tryggt sé að fullu að allir geti menntað sig og þroskað kosti sína án þess að bágur efnahagur komi þar í veg fyrir. Vegna orða hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur um ástæður umræðunnar, ef lögbrot og sinnuleysi sjóðsins er ekki nægileg ástæða fyrir umræðu utan dagskrár um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þá spyr ég hvað sé næg ástæða til þess.