Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 17:04:03 (1190)

1999-11-04 17:04:03# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég held að umræðan hafi sýnt að það var rétt sem ég sagði í upphafi máls míns að ég sé ekki tilefni hennar á hv. Alþingi, enda var málið lagt þannig fyrir mig að hún væri hér í dag vegna þess að hv. þm. sæti á þingi en ekki vegna þess að málefni lánasjóðsins væru í einhverjum sérstökum vanda. Þannig var mér kynnt þetta og þess vegna var ég beðinn að taka þátt í umræðunni, ekki vegna lánasjóðsins, heldur vegna þess að hv. upphafsmaður umræðunnar væri á þingi núna. Mér sýnist líka að umræðan hafi leitt í ljós að það er ekkert sérstakt sem að kallar á umræðuna í dag, það eru engin lögbrot sem verið er að fremja á lánasjóðnum sem menn hafa afhjúpað í dag. Þetta mál hefur verið til umræðu, því var skotið til málskotsnefndar sem fjallaði um málið og sagði að lánasjóðsstjórnin starfaði að fullu í samræmi við lögin. Ég skil því ekki hvernig menn komast allt í einu að þeirri niðurstöðu í miðjum umræðunum að þeir séu að koma í veg fyrir lögbrot með því að efna til umræðunnar utan dagskrár í dag. Tilefnið var að hv. þm. situr hér núna sem varaþingmaður og menn báðu um að umræðurnar færu fram af því tilefni. Það verður að upplýsa það eins og það er. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvernig hæstv. forseti túlkar 50. gr. þingskapalaganna með tilliti til þess. Þetta vil ég láta koma fram.

Hér er skýrsla um stöðu lánamála í allri Evrópu. Í þessari skýrslu kemur fram að Lánasjóður ísl. námsmanna er til fyrirmyndar varðandi félagslega aðstoð við lánþega og viðskiptavini sína. Ég held að menn ættu að kynna sér þessa skýrslu sem sífellt eru að tala um að illa sé staðið að lánamálum til námsmanna á Íslandi. Einnig vil ég minna hv. þm. Pál Magnússon á það að með frv. til laga 1997 og samþykkt þess náðist samkomulag á milli Framsfl. og Sjálfstfl. um málefni lánasjóðsins og námsmenn tóku fullan þátt í því að móta þær reglur sem við settum inn í lögin árið 1997.