Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 17:20:13 (1194)

1999-11-04 17:20:13# 125. lþ. 20.9 fundur 102. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (varðveisla skipa) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[17:20]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð að þetta sé hið merkasta og þarfasta mál. Það er styrkur að eiga bæði sögu og nútíð að byggja á til framtíðar. Mér finnst það eðlilegt að atvinnuvegurinn taki jafnframt þátt í starfinu og sé ábyrgur fyrir sögu sinni og menningu. Tækniframfarir eru stórstígar og örar. Það sem áður tók aldir að breytast skiptir um ham núna bara á örfáum árum. Menn eru mjög fljótir að missa af lestinni. Það fjármagn og kerfi sem við höfum við verndun þjóðminja og annars slíks er auk þess engan veginn í stakk búið til að takast á við það sem hér er að gerast og þau miklu menningarverðmæti sem þarna getur verið um að ræða, að veita þeim eðlilegt hlutverk í nútímanum svo þau verði hluti af ásýnd og vitund atvinnuvegarins.

Ég tek heils hugar undir að þetta mál fái mjög gott og vandað brautargengi. Það má vel vera að finna megi aðrar leiðir í útfærslu á hvernig háttað verði um val, stjórnun og annað því um líkt, það er jú bara úrvinnsluatriði. Mér finnst afar eðlilegt að atvinnuvegurinn taki þátt og á vissan hátt ábyrgð á sjálfum sér eins og hér er lagt til.